Álögur á akstursíþróttir og aðför að fornbílum og samgöngusögu

Lestími: 2 mín

Alþingi er að fara yfir frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026. Í frétt hér á undan var fjallað um veigamiklar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Hér á eftir er viðbót við þá frétt þar sem fjallað er um aðför í frumvarpinu að áhugafólki um fornbíla og akstursíþróttastarfi.

Vörugjald á ökutæki í akstursíþróttum                            

Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins var lagt til að allar undanþágur frá gjöldum fyrir sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól til nota í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum félaga innan Akstursíþróttasambands Íslands falli brott. Þetta væri hrein aðför að skipulögðu akstursíþróttastarfi.

AKÍS

Í breytingartillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar er lögð til breyting á álagningu vörugjalds á sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnishjól. Lagt er til að við lög um vörugjald af ökutækjum m.m. bætist við ný grein um 500.000 króna afslátt af vörugjöldum keppnisökutækja með fyrirvara um að gjaldið sé aldrei lægra en 0 kr. Sett eru fram nokkur skilyrði fyrir afslættinum. Ökutæki sé skráð sem keppnistæki og notkun þess bundin við keppni, æfingar og akstur til og frá keppnissvæðum. Með umsókn um lækkað vörugjald verði að fylgja vottorð frá framleiðanda og yfirlýsing frá Akstursíþróttasambandi Íslands sem er aðili að Íþróttasambandi Íslands. Auðkenna á keppnisökutækin sérstaklega og þau sem njóta afsláttar verða bundin skilyrðum í 10 ár frá skráningu. Ef brotið er gegn reglunum þá er ríkinu heimilt að leggja vörugjald á skráðan eiganda ökutækis að viðbættu 50% álagi.

Menningarlegur tilgangur fornbíla virtur að vettugi                                                                                          

Þessar breytingar meirihlutans eru lítilega til bóta miðað við tillögur ráðuneytisins um brottfall en eðlilegast hefði verið að halda núverandi ákvæði vörugjaldslaganna óbreyttu.

Í núverandi löggjöf bera fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki sem eru 40 ára og eldri 13% vörugjald. Meirihlutinn tekur undir tillögur ráðuneytisins um að fornbíla ákvæðið falli niður og að fornbílar 40 ára og eldri falli undir meginregluna um álagningu vörugjalds á grundvelli losunar koltvísýrings eins og gildir um aðrar fólksbifreiðar í tillögum stjórnvalda. Ef skráð losun ökutækis liggur ekki fyrir skal losun á hvern ekinn kílómetra ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi.

Mestar líkur eru á því að bíll sem er 40 ára eða eldri sé ekki með skráða koltvísýringslosun. Verði þessi breytingartillaga að lögum mun vörugjald á flesta fornbíla sem eru 40 ára eða eldri og vega yfir 1.400 kg (eigin þyngd) fara í 70% við innflutning til landsins.

Það sætir furðu að setja allt að 70% vörugjald á fornbíla 40 ára og eldri. Í nefndaráliti vegna breytinga á vörugjaldi á Alþingi 2002 til 2003 var tiltekið að með hliðsjón af takmarkaðri notkun fornbifreiða 40 ára og eldri og menningarlegs tilgangs þeirra, m.a. með tilkomu bílasafna víða um land og mikilvægis eldri bíla í tengslum við kvikmyndagerð væri eðlilegt að innheimta af þeim lægri vörugjöld en almennt gerist. Þessi rök eru jafngild nú sem fyrr og furðulegt að telja að ofurskattlagning fornbíla auki jafnræði í skattkerfinu og mæti gildandi stefnu stjórnvalda í umhverfis- og skattamálum.

Samgöngusagan

Samgöngutæki fyrri tíðar og menningarminjar á ekki að skattleggja upp í rjáfur með ómálefnalegri réttlætingu. Þessi ökutæki eru almennt hverfandi notuð í almennri umferð og rökleysa að réttlæta stórfellda hækkun gjalda með umhverfisávinningi.

FÍB skorar á Alþingi og ríkisstjórn að leggja ekki óeðlilegar álögur á íþróttastarf og tómstundir og leggja ekki stein í götu áhugafólks um samgöngu- og tæknisögu landsins. Fornbílaálögurnar skila ríkinu engum ávinningi umhverfis- eða tekjulega. Álögurnar skerða starf áhugafólks um eldri bíla og draga úr möguleikum íslenskrar kvikmyndagerðar að sviðsetja umferðaratriði frá fyrri tímum. Vonandi verða gerðar breytingar á þessu frumvarpi við þinglega meðferð.

Deila grein: