Djúp hjólför í slitlagi eru umtalsvert vandamál á íslenskum vegum. Sambærileg hjólfaramyndun er mun minni á hinum Norðurlöndunum. Það er grundvallarkrafa í nútímasamfélagi að við þessu sé brugðist með úrbótum, bættu verklagi og efnisvali.
Formbreytingar og skrið á slitlagi tengist aðallega umferð þungra ökutækja. Nagladekk slíta einnig yfirborðsslitlagið sem myndar hjólför og rásir. Umferðarmagn, hlutfall þungra ökutækja, ökuhraði, hlutfall nagladekkja, saltnotkun og veðurlag eru allt þættir sem hafa áhrif á myndun djúpra hjólfara.
Í morgunblaðinu í gær var umfjöllun um djúp hjólför í malbiki á höfuðborgarsvæðinu. Haft var eftir framkvæmdastjóra FÍB að hjólför og rásir í vegum geti skapað mikla hættu í umferðinni. Hann sagði einnig að íslenskir vegir væru mun verri varðandi hjólfaramyndun en vegir í Skandinavíu. ,,Við sjáum að þetta er ekki að standast þær kröfur sem þarf að gera til nútímavega.”

Samkvæmt fræðilegum skilgreiningum verður hjólfaramyndun í malbiki á Íslandi helst rakin til nagladekkja notkunar og vegna varanlegra, deigra formbreytinga í undirlagi vegar. Á umferðarþyngstu götum höfuðborgarsvæðisins hafa nagladekk veruleg áhrif til viðbótar við formbreytinguna. Þar sem umferð er minni eru formbreytingar vegna þungra ökutækja aðal ástæða hjólfaramyndunar. ,,Þegar um hjólfaramyndun vegna slits er að ræða verður yfirborð malbiksins hrjúfara og fylliefnakorn standa víða uppúr yfirborðinu og það myndast eitt mjótt hjólfar án þess að malbikið þrýstist upp til hliða við hjólfarið sjálft, sem yrði ef myndunin væri vegna skriðs.”[1] Hluti deigra formbreytinga í hjólfaramyndum hefur líklega verið vanmetin á Íslandi og tengist vegbyggingu, efnisgæðum og lagþykkt.

Veðurfarslegar aðstæður á Íslandi geta verið erfiðar. Það eru oft sveiflur í hitafari, jafnvel innan sama sólarhrings, votviðri og mikill vindstyrkur. Þetta getur haft áhrif á endingu en sennilega vegur það þyngst að viðhald í samræmi við þörf skortir. Einnig hafa komið ábendingar um verri og ódýrari bindiefni og ófullnægjandi eftirlit með framkvæmdum.
Hjólför draga úr öryggi vegfarenda. Akstursaðstæður verða erfiðari, dekkjaslit og eldsneytisnotkun eykst. Vatn leitast við að sitja í hjólförum sem skapar hættu á uppfloti eða vatnsplönun og myndar hálku þegar frystir.
[1] Hjólför í íslensku malbiki -Slit og deigar formbreytingar. Birkir Hrafn Jóakimsson MS ritgerð við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild HÍ, 2014.






