Bílar, aukablað Morgunblaðsins, var í dag með athyglisverðar fréttir um markaðsleg áhrif nýrra laga um vörugjald á ökutæki við innflutning og ný útblástursviðmið. Rætt er við Bjarna Þórarinn Sigurðsson framkvæmdastjóra hjá BL og Írisi Hannah Atladóttur hagfræðing hjá Bílgreinasambandinu (BGS).

Breyting á vöruframboði
Bjarni segir m.a. að breytingarnar muni hafa veruleg áhrif á vöruframboð á íslenskum markaði. Hann segir sum umboðin vera með gott framboð af bílum sem falla vel að breyttum innflutningsgjöldum en önnur ekki. Stór hluti nýrra bíla munu hækka í verði eftir breytingarnar. Ódýrari rafbílar ættu að vera á svipuðu verði og fyrir áramót þar sem orkustyrkurinn lækkar en vörugjald á rafbíla sem var 5% fellur niður. Rafbílar sem fara yfir 10 milljóna króna þröskuldinn gætu lækkað lítillega í verði. Bjarni segir að tengiltvinnbílar komi sérlega illa út úr breytingunum. Þar fara saman lækkuð losunarviðmið í nýju reglunum varðandi álagningu vörugjalds og breyttar reglur í Evrópu varðandi útblástursmælingar (WLTP).
Bjarni kemur einnig inná mögulegan vanda bílaleiga. Viðskiptavinir hafi verð tregir til að leigja rafbíla þar sem margir þeirra þekkja ekki hvernig á að umgangast og hlaða rafbíla. Verði snörp breyting og mikil fjölgun rafbíla þá gætu skapast vandamál í tengslum við hleðsluinnviði.

Aukin ásókn í rafbíla
Íris Hannah hjá BGS segir að bílamarkaðurinn muni breytast Aukin ásókn verði í rafbíla og tölur BGS sýni að heimilin séu þegar farin að færa sig þangað. Umboðin séu í misgóðri aðstöðu til að aðlagast breyttu gjaldaumhverfi með fjölbreyttu framboði á rafmagnsbílum.

Tengiltvinnbílar
Íris nefnir líkt og Bjarni að hlutfallslega hækki tengiltvinnbílar mest í verði. Hluti hækkunarinnar á tengiltvinnbíla komi út af breyttum WLTP útblástursviðmiðum. Um áramót fóru viðmiðunarmælingarnar frá 800 km akstri í 2.200 km akstur. Við það minnkar hlutfall raforkunotkunar í aksturskostnaði og útblæstri. Þetta á að nálgast notkunarmynstur ökumanna á meginlandi Evrópu en endurspeglar ekki meðalakstur tengiltvinnbíla á Íslandi.
Breytingin nær til bíla sem framleiddir eru frá og með 2026. Íris bendir á að tengiltvinnbílar hafi gagnast mörgum sem ekki treysta sér til að fara í hreinan rafmagnsbíl en á móti hafi stór hluti notkunar þeirra verið á innlendri endurnýjanlegri orku, rafmagni.






