Takata loftpúðar enn þá alvarlegt vandamál
Citroën í Danmörku hefur sent innköllun og viðvörun á eigendur 780 eldri C4, DS4 og DS5 bifreiða. Um er að ræða 406 Citroën C4 bifreiðar frá árunum 2010–2011, 233 DS4 frá 2010–2011 og 141 DS5 frá 2010–2013. Í innkölluninni er eindregið ráðlagt að hætta akstri strax og hreyfa ekki ökutækið fyrr en búið er að skipta út loftpúðum. Samskonar innköllun er einnig í gangi í öðrum löndum Skandinavíu. Þetta eru skýr fyrirmæli frá höfuðstöðvum Citroën vegna alvarlegrar öryggishættu sem rekja má til Takata loftpúða.
Í júní sl. voru send innköllunarbréf frá Citroën vegna annarrar kynslóðar C3 bifreiða af árgerðum 2009-2017 og fyrstu kynslóð af lúxusútgáfunni DS3 sem voru framleiddar 2009-2017. Innkallanirnar komu í kjölfar alvarlegs atviks í Suður Frakklandi þar sem loftpúði sprakk út og náðu til allrar Evrópu og þar með Íslands (sjá neðar). Núna eru að berast öryggisinnkallanir vegna S4, DS4 og DS5 á ölum Norðurlöndunum utan Íslands. Viðvörunin er sterkar orðuð en í júní innkölluninni.

Tafarlaus stöðvun Þann 19. júní sl. sendi Brimborg umboðsfyrirtæki Citroën á Íslandi út póst á eigendur Citroën C3 (önnur kynslóð) og DS3 (fyrsta kynslóð) bifreiða sem framleiddar voru á árunum 2009 til 2019. Fram kom að ástæðan væri alvarleg öryggishætta vegna Takata loftpúða sem væru í sumum þessara bíla. Þeir viðskiptavinir Brimborgar sem umboðið hefur upplýsingar um lögheimili hjá eða aðrar tengiliðaupplýsingar fengu sendar nánari upplýsingar.
Á heimasíðu Brimborgar má finna nánari upplýsingar til viðskiptavina og gefin upp vefslóð þar sem hægt er að slá inn verksmiðjunúmer bifreiðar og kanna hvort hún falli undir þessa stöðvunaraðgerð.
Brimborg hefur ekki sett inn innköllun á Citroën C4, DS4 og DS5 bifreiðar.
Takata innköllunin
Um er að ræða gamla Takata loftpúða, sem geta sprungið með miklu afli í árekstri og valdið alvarlegum meiðslum. Takata loftpúðarnir tengjast stærstu öryggisinnköllun sem framkvæmd hefur verið í bílaiðnaðinum. Innköllunin nær allt aftur til ársins 2008. Slys tengd gölluðum Takata loftpúðum hafa líklega þegar kostað yfir 20 mannslíf og valdið alvarlegum slysum á fólki.

Hvers vegna núna?
Stellantis, móðurfélag Citroën, ákvað eftir nýja áhættugreiningu að grípa til hertra aðgerða. Vandamálið varðandi öryggi þessara loftpúða er að efni í uppblásturskerfi þeirra geta brotnað niður með tímanum. Hættan á efnaniðurbroti er meiri í heitu og röku loftslagi.
Hvað á að gera?
Eigendur Citroën C4, DS4 eða DS5 á Íslandi, af þeim árgerðum sem búið er að kalla sérstaklega til viðgerðar í Skandinavíu (sjá ofar í fréttinni) eru hvattir til að hafa strax samband við Brimborg og fá nánari tilmæli um framkvæmd viðgerðar.
FÍB hvetur Brimborg til að senda frá sér tilkynningu um hvað standi til að gera og um stöðu eigenda þessara Citroën bifreiða hér á landi.
Í Danmörku hefur Motorstyrelsen (opinber stofnun) umsjón með öryggisinnköllunum í samræmi við evrópska reglugerð um öryggi varnings innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Motorsyrelsen sendir um þessar mundir tilkynningu til allra Citroën eigenda í Danmörku sem málið varðar.
Hér á landi ætti HMS að gera það sama en gerir það ekki. Sjá nánar hér.
Til upplýsingar Eftir því sem best er vitað hefur loftpúði í þessum innkölluðu Citroën bifreiðum á Norðurlöndunum ekki sprungið út fyrirvaralaust eða af of miklum krafti. Allur er varinn góður.