Bílastæði Keflavík Bílastæði Keflavík

Isavia brýtur enn og aftur lög vegna bílastæða, hver ber ábyrgð?

Lestími: 2 mín

Neytendastofa hefur m.a. í kjölfar  ábendinga frá FÍB rannsakað bílastæðastarfsemi Isavia ohf. á Keflavíkurflugvelli. Í dag var birt ákvörðun í málinu þar sem niðurstaðan er að Isavia hafi með háttsemi sinni brotið gegn mörgum ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og reglna um verðupplýsingar við sölu á þjónustu.

Í ákvörðunarorðinu kemur fram að Isavia upplýsti neytendur hvorki um gjald sem greiða þarf fyrir að nota stafrænar greiðslulausnir né upplýsti með áberandi hætti um þjónustugjald vegna kröfu í heimabanka.

Isavia braut einnig lög með því að gefa neytendum til kynna að til staðar væri sjálfvirkt greiðslukerfi eða sjálfvirk gjaldtaka án þess að taka fram að virkja þurfi þá þjónustu sérstaklega.

Refsigjald við brottfararrennu

Fyrirkomulag nýlegra gjaldheimtu við brottfararennu Keflavíkurflugvallar þar sem refsigjald er lagt á ökumenn sem dvelja lengur 5 mínútur við að skila af sér farþegum er einnig lögbrot. Fram kemur í ákvörðunarorðinu að eftir að ekið er inn í rennuna sé um 80 metra kafli frá því að gjaldtaka hefst þar til hægt er að hleypa farþegum út. Á þessum stað eru oft langar og tímafrekar biðraðir þegar margar brottfarir eru á svipuðum tíma.

,,Það er álit Neytendastofu að með hliðsjón af staðsetningu myndavéla, skorti á upplýsingum um að þjónustugjald leggist á eftir 5 mínútna viðveru og að teknu tilliti til þess þrönga tímaramma sem neytendum er gefinn til affermingar sé tilhögun gjaldtöku Isavia í umræddri rennu viðskiptahættir sem séu óréttmætir gagnvart neytendum. Telur Neytendastofa jafnframt að með því að haga gjaldskyldu þannig að neytandi geti ekki hætt við kaup á þjónustu eftir að ekið er inn í rennuna og sé tilneyddur til að kaupa þjónustu af Isavia vegna aðstæðna sem myndast geta og hann hafi ekki stjórn á, hafi Isavia viðhaft viðskiptahætti sem eru líklegir til að raska fjárhagslegri hegðun neytenda.” 

Neytendastofa, ákvörðun nr. 25/2025

Neytendastofa bannar Isavia að viðhafa þessa viðskiptahætti í brottfararrennunni frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Með vísan lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, beinir Neytendastofa þeim fyrirmælum til Isavia ohf. að koma merkingum á gjaldtökustað í það horf að þær uppfylli skilyrði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Stjórnvaldssekt

Isavia er gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 500.000,- krónur vegna brotsins. Sektina skal greiða í ríkissjóð innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Fyrir rúmum mánuði voru viðskiptahættir Isavia einnig úrskurðaðir ólögmætir í tengslum við bílastæðarekstur fyrirtækisins við innanlandsflugvelli. Fyrirtækið var þá einnig dæmt til greiðslu 500.000,- króna í sekt vegna lögbrota gegn neytendum.

Hver ber ábyrgð hjá ríkisfyritækinu?

Nú er Isavia ekki venjulegt fyrirtæki enda í eigu ríkisins og stjórn þess hefur löngum verið pólitískt skipuð. Hver ætlar að axla ábyrgð vegna þessar alvarlegu mála sem eru aðför að neytendum?

Deila grein: