Hér á eftir er stutt samantekt á þeim breytingum sem verið er að innleiða í lög um vörugjald á nýja bíla og koma til framkvæmda 1. janúar 2026. Einnig er lagt lauslegt mat á möguleg áhrif vörugjaldabreytinga á eign og rekstur heimilisbílsins og á fyrirtæki í bílgreininni.
Einnig taka gildi ný lög um kílómetragjald á alla bíla sem verður 6.95 krónur á hvern ekinn kílómetra. Hækkun kílómetragjalds á rafdrifnar fólksbifreiðar verður 16% og kílómetragjaldið á tengiltvinnbíla hækkar um 247%. Kílómetragjaldið mun auka reksturskostnað sparneytinna eldsneytisbíla og tengiltvinnbíla hressilega. Samhliða álagningu kílómetragjalds á bensín- og dísilbíla á að fella út vörugjöld á bensínlítra og olíugjald á dísillítra.
Með þessum lagabreytingum mun kostnaður við rekstur heimilisbílsins aukast og kaupverð bensín-, dísil- og tengiltvinnbíla hækka umtalsvert. Neikvæð þjóðhagsleg áhrif og mögulegt álag á verðbólgu kemur illa við neytendur.
Helstu breytingar og tillögur
Rafbílar verða ódýrari: Lagt er til að sérstakt vörugjald á hreina rafbíla, vetnis- og metanbíla verði afnumið, fari úr 5% í 0%, til að styðja við orkuskipti. Metanbílar í umferð eru blendingsbílar og nota bæði metan og hefðbundið jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa. Blendings metanbílar munu bera 10% sérstakt vörugjald og að auki lenda í viðbótar vörugjaldi vegna lækkunar losunarviðmiða á koltvísýring á nýju ári (sjá neðar í fréttinni)

Eldsneytisbílar hækka verulega:
- Sérstakt vörugjald á bensín- og dísilbíla hækkar úr 5% í 10%.
- Viðmiðunarmörk koltvísýringslosunar frá ökutækjum lækka úr 85g í 30g CO2/km. sem þýðir að stór hluti bifreiða lenda í hærri gjaldflokkum.
- Hámarks vörugjald hækkar úr 65% í 70%.
Tengiltvinnbílar hækka mest: Áætlað er að verð þeirra geti hækkað um 2 milljónir króna eða meira vegna hækkunar á sérstaka vörugjaldinu, lækkunar á viðmiðunarmörkum varðandi koltvísýringslosun og breytinga á WLTP prófunarmælingunum sem hafa skilað aukinni útlosun á CO2 frá tengiltvinnbílum .
Áhrif á fornbíla og keppnistæki
Fornbílar (40 ára+): Undanþágur falla niður og þeir verða skattlagðir eftir losun eða þyngd. Mjög margir fornbílar munu bera allt að 70% vörugjald en bera í núverandi kerfi 5% sérstakt vörugjald og síðan 13% fast vörugjald ofan á það.

Akstursíþróttir: Undanþága fyrir keppnistæki verður afnumin en þess í stað boðinn 500.000 kr. afsláttur af vörugjöldum með ströngum skilyrðum.
Gagnrýni og afleiðingar
Hærri reksturskostnaður: Reksturskostnaður neyslugrannra eldsneytisbíla og rafbíla hækkar. Mest verður hækkunin á tengiltvinnbíla eða um 20% umfram eldsneytis- og kílómetragjaldskostnað í dag. Um l5% hækkun kemur á rekstur lítilla og léttra bensín- og dísilbíla vegna kílómetragjaldsins en lækkun um svipaða prósentu vegna reksturs þungra og eyðslufrekra jeppa.
Verðbólga: Samtök atvinnulífsins og FÍB vara við því að breytingarnar hækki verðbólgu verulega, sem gæti haft áhrif á forsendur kjarasamninga.
Heimili og byggðir: Hækkunin bitnar á notuðum bílum, barnafjölskyldum og íbúum í dreifbýli þar sem hleðsluinnviðir eru verri. Aukinn reksturskostnaður kemur illa við heimilisbókhaldið.
Atvinnulíf: Óttast er um rekstur bílaleiga og bílaumboða, með tilheyrandi hættu á samdrætti og fækkun starfa í bílgreininni. Allt getur þetta haft neikvæð áhrif á þjóðarhag.
Niðurstaða: Þótt rafbílar njóti ívilnunar, þá munu heildaráhrifin að mati FÍB og fleiri leiða af sér verulega aukinn kostnað við eign og rekstur heimilisbílsins auk neikvæðra áhrifa á efnahagslegan stöðugleika.







