Kínverskir bílaframleiðendur draga lappirnar varðandi öryggisinnköllun bifreiða

Lestími: 2 mín

Kínverskir bílaframleiðendur hafa haslað sér völl í Evrópu með ódýrum og vel útbúnum rafbílum. Þrátt fyrir að ýmis vandamál hafi komið upp í sumum gerðum, eru opinberar innköllunarherferðir kínverskra framleiðenda sjaldgæfar.

Samkvæmt Evrópureglum ber framleiðendum að tilkynna strax ef upp kemst um öryggisgalla. Reynslan sýnir að það er oft háð vilja framleiðandans að viðurkenna vandann Eftirlit yfirvalda í Evrópu er veikburða og þá sérstaklega gagnvart nýjum eða litlum framleiðendum.

Sem dæmi má nefna að sænskir bílablaðamenn hjá Teknikens Värld í Svíþjóð komust að því í mars 2024 að fjórhjóladrifið BYD SEAL virkaði ekki. Vandinn var leystur af tæknimönnum BYD með hugbúnaðaruppfærslu án opinberrar innköllunar. Þarna var gripið til svokallaðs „þjónustuátaks“ í kyrrþey í stað þess að fara í opinbera innköllun. Þessi rannsóknarvinna sænsku blaðamannanna er frábært framtak en auðvitað hefði BYD á að tilkynna hugbúnaðargallann til eftirlitsstofnunar ESB.

Það virðist erfiðara að hafa eftirlit með framleiðendum sem selja frekar fáa bíla á evrópskum markaði. Margir kínverskir framleiðendur láta gerðarviðurkenna bíla sína í fámennari löndum Evrópusambandsins þar sem ferlið er einfaldara og þá um leið eftirlitið.

Í Bandaríkjunum er regluverkið mun strangara og þar eru innköllunarherferðir miklu sýnilegri. Í Kína sjálfu hafa framleiðendur þurft að innkalla tugþúsundir bíla vegna öryggisgalla.

Ljóst er að Kínverskir bílaframleiðendur eiga að lúta sömu reglum og aðrir framleiðendur í Evrópu, en í raun er opinbert eftirlit ekki nógu öflugt og neytendur þurfa því um of að treysta á vandaðar bílaprófanir bílablaðamanna og eigin reynslu til þess að fá upplýsingar um galla.

Öryggisinnkallanir ökutækja á Íslandi í salti

Innköllun á vöru, sem getur stofnað heilsu og öryggi neytenda í hættu, er lögbundin í Evrópu. Innköllunar og tilkynningarskyldan hvílir á framleiðanda og umboðaaðila framleiðenda í hverju landi fyrir sig. Þetta eru oft alvarlegir og stundum lífshættulegir gallar. Framleiðendum ber einnig  að tilkynna strax um öryggisgalla til vöruöryggisstofnunar Evrópu sem er með samstarfsstofnanir  í öllum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hér á landi er Húsnæðis og mannvirkjastofnun, HMS, útvörður og tengiliður neytenda og fyrirtækja varðandi miðlun upplýsinga um hættulegar vörur. Því miður hefur HMS ekki verið að standa sig í langan tíma varðandi upplýsingagjöf um öryggisinnkallanir ökutækja til neytenda á Íslandi. Sjá nánar hér.

Deila grein: