Defender OCTA Black er öflugasta gerð Land Rover og það eru engar málamiðlanir í hönnun. Í bílnum sameinast gríðarlegt afl og lúxus í svörtum lit.
OCTA Black
Land Rover kynnti nýverið Defender OCTA Black sem er öflugasta og djarfasta útgáfan af Defender. Bíllinn er knúinn 635 hestafla V8-vél, svartur að utan sem innan og sagður með framúrskarandi aksturseiginleika á vegum sem vegleysum.
Allt að 30 íhlutir á ytra byrði hafa fengið sér meðhöndlun með glansandi svörtu eða satin svörtu lakki og aðalliturinn er „Narvik Black“ sem er dýpsti svarti litur Land Rover. Einnig er hægt að fá matta hlífðarfilmu til að skerpa enn frekar á útlitinu. Allir smáhlutir s.s. grillmerki, dráttarkrókur og útblástursrör eru í svörtum tónum. Bíllinn er seldur á 20 eða 22 tommu alsvörtum sér merktum felgum.

Dökkur lúxus í farþegarýminu
Innréttingin fylgir sama svarta þemanu. Í fyrsta skipti í sögu Defender er blandað saman leðri og hágæða textílefni (KvadratTM) sem er endingargott og með mjúka áþreifanlega áferð.
Framsætin eru sérhönnuð sportsæti með götuðu mynstri og uppfærðum saumum. Bakið og armpúðarnir eru í gráum tón (Carpathian Grey).
Mælaborðið er með duftlakkað satín svart þverspjald og hægt er að sérpanta sérstakar kolefnistrefjar í innréttinguna sem gefur auka lúxusáferð.
Hljóðkerfið er 700 W með 15 hátölurum framsætunum finnst tónlistin einnig sem titringur í bakinu. Bíllinn er með nýjustu útgáfu af afþreyingarkerfi og með 13,1 tommu snertiskjá.
Sömu afköst en meira töff
Tæknin undir húddinu er sú sama og í venjulegum Defender OCTA. Bíllinn er knúið áfram af 4,4 lítra, Twin Turbo 48V mild hybrid V8 vél. Aflið er 627 hestöfl (635 PS, 467kW) og hann er innan við 4 sekúndur að fara frá 0 – 100 km hraða á klukkustund. Hámarks tog er 750 NM og uppgefin losun á koltvísýringi (CO2) er 294 g/km. OCTA Black er einnig búinn 6D Dynamics loftfjöðrunarkerfi sem bregst með tölvustýringu við mismunandi aksturslagi, með samhæfðum dempurum og hæðarstillanlegri loftpúðafjöðrun. Bíllinn er með sérstaka OCTA stillingu fyrir hámarksakstursgetu utan vega og í torfærum.
Oasis og OCTA Black
Defender OCTA Black verður einnig notaður sem aðalökutæki Oasis hljómsveitarinnar á endurkomutúrnum Oasis Live ’25, sem spannar 41 tónleika á heimsvísu. Það er ljóst að Gallagher bræður eru meira drifnir áfram af markaðsáherslum en á árum áður.

OCTA Black á Íslandi
Samkvæmt upplýsingum frá BL ehf, umboði Land Rover á Íslandi, er ekki ljóst hvort OCTA Black verður tekinn inn sem sýningarbíll. Að óbreyttu ætti að vera hægt að sérpanta bílinn. Verðið er óljóst en líklega í kringum 50 milljónir króna. Í Svíþjóð er búist við að bíllinn muni kosta frá 2,1 milljón sænskra króna eftir útfærslu. Fyrstu afhendingar þar í landi eru áætlaðar í lok árs 2025.