Ný kynslóð sport jeppans Toyota RAV4 var frumsýnd nýverið en bíllinn er væntanlegur á markað á næsta ári. Toyota RAV4 hefur verið gríðarlega vinsæll síðan bíllinn kom fyrst á markað árið 1994, Síðan þá hafa um 2,5 milljónir RAV4 bíla hafa selst í Evrópu og alls um 15 milljón bíla á heimsvísu.
Þetta verður sjötta kynslóð RAV4 og um er að ræða nýjan bíl frá grunni. Nýr RAV4 kemur í Hybrid og Plug-in Hybrid útfærslum og verður einungis fáanlegur með þessum rafknúnum aflrásum. Plug-in Hybrid bíllinn verður með stærri rafhlöðu en áður og meiri drægni eða allt að 100 km í stað 75 km áður.
RAV4 Hybrid verður knúinn af 2,5 lítra fjögurra strokka vél með fimmtu kynslóðar tvinnkerfi Toyota sem skilar samanlagt 226 hestöflum með framhjóladrifi, en fjórhjóladrifsútgáfan verður 236 hestöfl. Þetta er í fyrsta skipti sem RAV4 tvinnbíllinn er fáanlegur með framhjóladrifi.
RAV4 Plug-in Hybrid verður knúinn af 2,5 lítra fjögurra strokka vél og tveimur rafmótorum sem skila samanlagt 320 hestöflum, sem er aukning um 18 hestöfl frá síðustu gerð. Þá kemur ný kynslóð RAV4 með nýju afþreyingarkerfi sem er búið nýjum hugbúnaði. Auk þess verða endurbætt aksturs- og öryggiskerfi í nýja bílnum. Í innanrýminu verður hægt að velja annað hvort 10,5 tommu eða 12,9 tommu snertiskjá og þá kemur bíllinn með 12,3 tommu stafrænu mælaborði sem staðalbúnað.
Þá verður ný og sportlegri útgáfa af bílnum RAV4 GR Sport einnig í boði. Þessi sportlega útfræsla var hönnuð með innblæstri frá Toyota Gazoo Racing liðinu. RAV4 GR Sport verður með GR-stillta fjöðrun og stýriskerfi, aukinn stífleika yfirbyggingar og með 20 tommu dekk. GR Sport gerðin mun verða með sérstakt og sportlegt grill og vindskeið að framan og aftan.