„Það sem af er janúar hefur álagning olíufélaganna á bensín og dísilolíu aukist. Álagningin á hvern bensínlítra er um 10 krónum hærri en meðalálagningin var á síðasta ári. Álagningin á hvern dísillítra er einnig hærri, eða um fjórar krónur umfram meðalálag 2025. Eina fyrirtækið sem heldur í við verðþróun á heimsmarkaði er Costco sem breytt hefur verðinu fjórum sinnum á þessu ári,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Runólfur segir að Costco bjóði viðskiptavinum sínum bensín og dísilolíu sem er 15 krónum ódýrari á hvern lítra samanborið við besta verð hjá Orkunni sem sé með næsthagstæðasta verðið á markaðinum. Bensínlítrinn er 8,2% ódýrari hjá Costco samanborið við Orkuna en munurinn var 4,3% fyrir áramót. Það næst við vitum þá kaupir Costco eldsneytið af Skeljungi móðurfélagi Orkunnar.
Lækkaði um áramót
„Í eðlilegu viðskiptaumhverfi væru menn að henda viðskiptavininum frá sér með hárri verðlagningu, enda ætti valið að vera auðvelt fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að ákveða af hverjum það kaupir eldsneyti. En það hafa ekki allir landsmenn þetta val. Fólk á landsbyggðinni er víða að borga 30-40 krónum meira fyrir lítrann,“ segir Runólfur.
„Það er dapurt að sjá að heildarálagning á eldsneyti nú í janúar er töluvert hærri en meðalálagningin var á síðasta ári. Um áramótin varð skattalækkun sem leiddi til verulegrar lækkunar á eldsneytisverði. Grónu íslensku olíufélögin virðast glíma við freistnivanda, því að hver króna í aukinni álagningu á eldsneyti getur skilað olíufélögunum hátt í 400 milljónum króna í auknar tekjur yfir árið,“ segir Runólfur.
N1 að líkindum með mesta markaðshlutdeild
Runólfur telur að N1 sé að líkindum með mesta markaðshlutdeild, en Orkan og Olís með ÓB séu skammt undan. Atlantsolía og Costco gætu verið með svipaða hlutdeild á markaði, 10-15% hvort félag, sem hann segir merkilegt í ljósi þess að Costco sé aðeins með eina bensínstöð á sínum snærum. Runólfur segir að eins og staðan er nú á eldsneytismarkaði sé ekki óvarlegt að áætla að olíufélögin hafi að meðaltali um 70 krónur og jafnvel ríflega það í sinn hlut út úr hverjum seldum lítra, á þeim bensínstöðvum þar sem verðið er hæst, en það er nú um 230,70 krónur á lítrann. Almennt sé álagningin 50-60 krónur á lítrann.
„Við vitum að rekstrar- og flutningskostnaður er hár á Íslandi en álagningin er langt umfram það sem þekkist á öðrum markaðssvæðum.“
,,Flestir fagna því að sjá eldsneytisverðið fara svo mikið niður eins og raunin varð, þannig að neytandinn skynjar ekki krónuna til eða frá. En það er þó jákvætt að við erum að sjá 15 króna mun á ódýrasta verði olíufélaganna og verðinu hjá Costco sem býður lægsta verðið og er þeim mun ódýrara en verðið hjá því olíufélagi sem auglýsir sig alltaf ódýrast,“ segir Runólfur Ólfsson sem segir að augu margra beinist að eldsneytismarkaðinum þessa dagana, enda varði það neytendur miklu.
Það að eldsneytislækkun sé ekki að skila sér, eykur kostnað, og hefur neikvæð áhrif á neytendur. Tregða og frekleg framkvæmd olíufélaganna að lækka ekki eldsneytisverð í samræmi við þróun á heimsmarkaði eykur kostnað fjölskyldna og fyrirtækja og viðheldur hárri verðbólgu. Það er einkennileg staðreynd að eini eldsneytissalinn á íslenska olíumarkaðnum sem virðist vera í samkeppni og skilar eðlilegum verðum til neytenda er Costco sem er bandarískur auðhringur.






