Bílastæðið á Seljalandsfossi skilaði 213 milljón króna hagnaði 2024

Lestími: < 1 mín

Í umfjöllun FÍB-blaðsins um gjaldtöku á bílastæðum á ferðamannastöðum kemur fram að bílastæðið við Seljalandsfoss skilaði 213 milljón króna hagnaði eftir skatta í fyrra. Kostnaður við rekstur bílastæðisins nam 27% af tekjunum.

Í FÍB-blaðinu, sem berst til félagsmanna 1. nóvember,  er síðan tekið dæmi af bílastæðinu á Þingvöllum. Tekjur af því náðu 300 milljónum króna 2024 og fóru þær allar í rekstur þjóðgarðsins.

Skattgreiðendur hafi lagt 73 milljónir króna til að bæta aðgengi og öryggi við Fjaðrárgljúfur

Í umfjöllun blaðsins er bent á að Arctic Adventures hafi keypt landið við Fjaðrárgljúfur í fyrra fyrir meira en 300 milljónir króna. Miðað við fjölda ferðamanna við náttúruperluna geti Arctic Adventures haft rúmar 100 milljónir króna í árlegar bílastæðatekjur, sem skýri verðmiðann á landareigninni. Fram kemur í blaðinu að skattgreiðendur hafi lagt 73 milljónir króna til að bæta aðgengi og öryggi við Fjaðrárgljúfur í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Í raun verið að rukka fyrir aðgang að náttúruperlunum til viðbótar við afnot af bílastæðum

Af umfangsmikilli umfjöllun FÍB-blaðsins um gjaldtöku á bílastæðum við ferðamannastaði má sjá að mjög víða er í raun verið að rukka fyrir aðgang að náttúruperlunum til viðbótar við afnot af bílastæðum. Langflestir þessara ferðamannastaða hafa fengið mikinn fjárhagslegan stuðning úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og eitt af skilyrðum fyrir slíkum styrkjum er að innheimta aðgangseyris sé óheimil.

Deila grein: