„Fengu ekki allir bílastæði?”

Lestími: 2 mín

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var á léttu nótunum í upphafi morgunfundar sem hún boðaði til um aðgerðir til að efla neytendavernd í tengslum við gjaldskyldu á bílastæðum. Jú, allir fengu bílastæði, enda nóg af þeim við fundarstaðinn – og engin gjaldskylda.

Ráðuneyti Hönnu Katrínar og innviðaráðuneytið hafa verið að skoða frá því í ágúst síðastliðnum hvað hægt sé að grípa til ráðs við ófremdarástandi vegna sívaxandi gjaldtöku á bílastæðum. Fram kom í máli Hönnu Katrínar að stjórnvöld litu til þess að nýtt frumvarp til markaðssetningarlaga myndi taka á mörgum álitamálunum. Hins vegar snertu þessi mál marga lagabálka og tæki tíma að koma þeim í skikk. Hún hafði hins vegar góð orð um að láta ekki sitt eftir liggja.

Vefsíða um gjaldskyld bílastæði

Þá hefur verið ákveðið að fara eftir ábendingum FÍB og opna sérstaka vefsíðu með upplýsingum um öll gjaldskyld bílastæði og það sem þeim tengist. Ráðherra sagði að það færi flókið að setja síðuna upp, en myndi vonandi klárast á þessu ári.

Vandséð með innheimtulögin

Einnig hefur ráðuneytið ásamt innviðaráðuneytinu átt í samskiptum við Fjármálaeftirlit Seðlabankans um hvernig innheimtulög geti nýst til að koma böndum á gjaldtökuna. Komið hefur í ljós að FME telur flókið að virkja innheimtulögin í þessu skyni.

Umferðarlögin gætu nýst

Hanna Katrín nefndi einnig að hugsanlega mætti setja reglugerð um bílastæðamál á grundvelli umferðarlaga. En til þess þyrfti að gera breytingar á umferðarlögunum.
Eitt væri skýrt í þessum efnum, sagði ráðherrann, og það er að stjórnvöld bera ábyrgð á því að skapa ramma utan um þennan málaflokk. Hún sagði að almennt hefði fólk ekkert á móti því að borga fyrir bílastæði, það væri vesenið og leiðindin í tengslum við það sem þyrfti að koma böndum á.

Auk ráðherrans fluttu þau Þórunn Anna Árnadóttir forstjóri Neytendastofu og Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB erindi um málið. Nánar verður skýrt frá þeim síðar í FÍB fréttum.

Deila grein: