Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt fram breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026 . Tillögurnar varða lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026 er lagt út frá að tekjur ríkisins af vörugjaldi ökutækja aukist um 7,5 milljarða króna miðað við áætlaðar tekjur í ár. Vegna stóraukins innflutnings á bílum til landsins síðustu vikur, sem eru bein viðbrögð markaðarins við fyrirhuguðum vörugjaldsbreytingum 2026, munu vörugjaldstekjur af innfluttum ökutækjum stóraukast umfram áætlanir ársins. Þessi innflutningsaukning mun að óbreyttu draga verulega úr tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum ökutækja á næsta ári.
Tillögur fjármála- og efnahagsráðuneytisins
Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar þann 17. október sl. voru lagðar fram tillögur um víðtæka breytingu á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Tillögunum er ætlað að auka tekjur ríkissjóðs af innflutningi ökutækja m.a. með því að lækka viðmiðunarmörk útlosunar koltvísýrings verulega. Lagt er til að fækka undanþágum frá vörugjöldum verulega og þreföldun á sérstöku vörugjaldi úr 5% í 15%. Í tillögunni er sérstaka vörugjaldið á rafbíla og hreina vetnis- og metanbíla fellt út þannig að þeir beri ekki vörugjald við innflutning.
Tillaga meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur sett fram breytingar við tillögur ráðuneytisins. Varðandi fólksbíla þá tekur nefndin undir tillögu ráðuneytisins um að sérstakt vörugjald (grunngjald) sem er 5% falli niður á ökutæki sem eingöngu eru knúin rafmagni, metani eða vetni. Í raun á þetta nánast eingöngu við um rafbíla þar sem lítið sem ekkert hefur verið flutt inn af hreinum metan- eða vetnisbílum síðustu ár. Ráðuneytið leggur til hækkun á sérstaka vörugjaldinu á bensín- og dísilbíla i 15% en meirihluti nefndarinnar lækkar það í 10% eða um 100%. Meirihlutinn leggur til viðbótar fram hækkun hámarks vörugjalds úr 65 í 70% samanlagt. Vörugjald á fólksbíla með brunahreyfli á aldrei að vera lægra en 10% en getur mest farið í 70%. Það er varla til önnur innflutt vara á íslenskum markaði sem ber jafn hátt vörugjald og bílar í efsta flokki þ.e. 70% og ofan á það leggst virðisaukaskattur. Tillögur ráðuneytisins um lækkun losunarviðmiða koltvísýrings ökutækja úr 85 grömmum af CO2 á km samkvæmt WLTP prófunaraðferðinni niður í 30 grömm haldast óbreyttar í breytingatillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar. Ofan á lækkun losunarviðmiða leggur nefndir til að prósenta gjaldsins á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar hækki um 21,4% úr 0,28% í 0,34%.
WLTP, eða Worldwide Harmonized Light Vehicles Test Procedure, er alþjóðlegur staðall fyrir prófanir og mælingar á eldsneytiseyðslu, CO₂-losun nýrra bíla og drægni nýrra rafbíla. Staðallinn er nær raunnotkun ökutækja og byggir á fjölbreyttari akstursnotkun (meiri hraða, lengri akstursvegalengdum og mismunandi hröðun) samanborið við NEDC sem er staðalinn sem áður var notaður.
Mikil hækkun á verði eldsneytisbíla
Samkvæmt útreikningum frá Bílgreinasambandinu þá má gera ráð fyrir verulegri hækkun á verði bensín- og dísilbíla verði þessar breytingar lögfestar. Útsöluverð lítils bensínbíls mun hækka um 600 til 800 þúsund krónur. Stórir bensínbílar munu að meðaltali hækka um ríflega 1.100 þúsund krónur. Vinsælir tengiltvinnbílar sem nú bera 5% vörugjald fara í 30% vörugjald. Sérstaka vörugjaldið fer úr 5% í 10%, losunarviðmiðið lækkar niður i 30% samhliða nýjum mælingum sem hækka losun tengiltvinnbíla á koltvísýringi í Evrópu. Verð á meðal tengiltvinnbíl mun hækka um 2 milljónir króna og þaðan af meira.

Hækkað verð á notuðum bílum og aukinn framfærslukostnaður
Hækkun vörugjalda mun hafa mikil áhrif á verð nýrra brunahreyfilsbíla sem aftur skilar sér í hækkun á markaði með notaða bíla. Mikill meirihluti heimila kaupir notaða bíla og þar sem stærsti hluti bíla á eftirmarkaði eru með brunahreyfil þá mun framfærslukostnaður þeirra heimila vaxa. Þetta mun hafa mest áhrif á yngri aldurshópa og barnafjölskyldur. Hækkunin mun einnig koma illa við íbúa í dreifbýli sem geta ekki treyst með sama hætti á hleðsluinnviði eins og í þéttbýlinu.
Þessi skarpa hækkun vörugjalda sem stjórnvöld áforma mun koma illa við bílaleigur sem skila umtalsverðu magni af bílum inn á markað notaðra ökutækja. Bílaleigur hafa keypt að meðaltali um 40% nýskráðra fólksbifreiða á liðnum árum. Skattahækkunin mun einnig koma illa við aðra lögaðila sem treysta á rekstur ökutækja í sinni starfsemi.







