Í morgun voru fréttir hjá RÚV, MBL og VÍSI um nýja könnun á vegum Prósent um viðhorf fólks til álagningar kílómetragjalds á alla bíla. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga frá ríkisstjórn Íslands um álagningu kílómetragjalds sem gæti orðið að lögum í haust.
Þegar unnið var að þessari frétt hjá FÍB Fréttum var ekki er búið að birta könnunina á heimasíðu Prósents. Ekki kemur fram nákvæmlega í fréttum hvaða rannsóknarspurningar voru lagðar fyrir svarendur.
Könnunin var gerð frá 10. til 25. júní. Úrtakið var 1.950 einstaklingar átján ára og eldri og um 50 prósent svöruðu könnuninni.
Samkvæmt könnuninni skiptist þjóðin í nánast þrjá nokkuð líka hópa varðandi afstöðu til frumvarpsins. Hlynntir voru 37 prósent, 35 prósent andvíg og 28 prósent voru óráðin eða hvorki hlynnt né andvíg.

Karlar eru hlynntari kílómetragjaldinu en konur. 46 prósent karla voru hlynntir frumvarpinu en aðeins 27 prósent kvenna.

Höfuðborgarbúar voru mun hlynntari kílómetragjaldi en landsbyggðin. 40 prósent í borginni voru meðmælt en hlutfallið fór niður í 32 prósent meðal íbúa á landsbyggðinni.

Eigendur dísilbíla eru marktækt meira á móti kílómetragjaldi en eigendur rafbíla og þeir sem eiga ekki bíl. 40 prósent dísilbílaeigenda eru andvígir, 34 prósent hlynntir og 25 prósent hvorki né. Það eru allt önnur hlutföll hjá eigendum rafbíla sem þegar borga kílómetragjald. 30 prósent rafbílaeigenda eru á móti, 47 prósent eru jákvæðir og 23 prósent taka ekki hreina afstöðu.

Í könnuninni var einnig spurt um heildarakstur heimilisbílsins yfir árið og þá kom fram að andstaðan við frumvarpið eykst eftir því sem meira er ekið.

Þessi frétt byggir á könnun Prósent og fréttum um málið hjá VÍSI, MBL og RÚV.