Meðaltekjur á Íslandi eru í kringum 800.000 kr á mánuði fyrir skatt og mætti því áætla að hjón með meðaltekjur væru með um 12,5 milljónir til ráðstöfunar á ári eftir skatt, eða röskar 6,2 milljónir hvort um sig.
„Miðað við regluna um að bíll megi ekki kosta meira en 40% af ráðstöfunartekjum heimilisins þá geta þau láti eftir sér bíl sem kostar rétt tæplega fimm milljónir. Ef tekið er lán til fimm ára fyrir 80% kaupverðsins þá væru afborganirnar mánaðarlega 90.000 kr. fyrir eldsneytisbíl en 87.000 kr. fyrir rafmagnsbíl,“ segir Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi FÍB. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í aukablaði um bíla.
Rekstrarkostnaður rafbíla er öllu lægri
„Ef við miðum við eldsneytisbifreið og 15.000 km akstur á ári, þá segir reiknivél FÍB, að reikna megi með að mánaðarlegur reksturskostnaður nemi 156.000 kr., en inni í þeirri tölu eru m.a. eldsneyti, tryggingar og verðrýrnun. Að meðtöldum afborgunum af lánum er kostnaðurinn við bifreiðina þá kominn upp í u.þ.b. 246.000 kr. eða um 24% af ráðstöfunartekjum parsins. Rekstrarkostnaður rafbíla er öllu lægri, en í því dæmi næmi kostnaðurinn af bifreiðinni samt tæp 22% af ráðstöfunartekjum heimilisins.“
Björn bendir jafnframt á að leitun sé að nýjum fjölskyldubílum sem kosta um eða undir fimm milljónir, en þó virðist framboðið alltaf að aukast af rafbílum sem geta uppfyllt fyrrgreindar kröfur. Hægt er að fara ögn upp í stærðar- og gæðaflokki ef keypt er notuð bifreið frekar en ný og segir Björn að mörgum þyki hagkvæmast að kaupa 2-4 ára gamlar bifreiðar sem eru þá enn í ábyrgð og tiltölulega vel útbúnar hvað tækni og getu varðar.
Reikna má með 15-18% afföllum fyrsta árið og síðan 12% á ári eftir það
„Reikna má með 15-18% afföllum fyrsta árið og síðan 12% á ári eftir það, og miðað við þá þumalputtareglu gæti íslenska meðalfjölskyldan keypt, fyrir rétt rúmar fimm milljónir, þriggja ára gamla bifreið sem kostaði átta milljónir ný, en í þeim verðflokki má oft t.d. finna stærri og hentugri fjölskyldubíla.“
Víða eru bílar ódýrari
Rétt er að minna á að í dæminu hér að ofan deila tvær fyrirvinnur með sér einni bifreið, en svigrúmið til bifreiðakaupa verður enn minna ef hver meðallaunþeginn vill hafa sína bifreið. Björn bendir á að þar að auki kalli aðstæður margra á að kaupa bíl sem kostar meira en 40% eða 20% reglan heimilar.
„Þarfagreining leiðir iðulega í ljós að fólk þarf oft nokkuð stóra bíla sem rúmað geta alla fjölskylduna, og oft gerð sú krafa að bifreiðin sé fjórhjóladrifin – sérstaklega ef fólk býr utan höfuðborgarsvæðisins. Þarna erum við strax komin í 7-8 milljóna verðbilið og upp úr.“
Rót vandans er hvað gjöld á bifreiðar eru há á Íslandi
Ein af rótum vandans, að sögn Björns, er hvað gjöld á bifreiðar eru há á Íslandi. „Ef við tökum sem dæmi japanskan smábíl sem kostar 5 milljónir á Íslandi þá kostar hann 17% minna í Noregi, 6% minna í Danmörku og um 40% minna í Svíþjóð,“ segir hann og bætir við að yfir helmingur af verði bensínlítrans fari rakleiðis í ríkissjóð.
,,Ber skattlagning bifreiða á Íslandi þess keim að bílar séu munaðarvara og lúxus frekar en nytjavara, og þrengir það mjög að fjárhag heimilanna. „Og er það samt staðreynd að fjölmargar fjölskyldur hafa ekki möguleika á að komast af, með góðu móti, án bifreiðar,“ segir Björn Kristjánsson í samtalinu við Morgunblaðið.






