Nágrannar verða fyrir barðinu á gjaldtöku á bílastæðum

Lestími: < 1 mín

FÍB og Neytendasamtökin hafa í sameiningu skorað á stjórnvöld að hemja sívaxandi gjaldtöku á bílastæðum einkafyrirtækja. Sú gjaldtaka hefur einatt þau áhrif að valda átroðningi á gjaldfrjálsum bílastæðum næstu nágranna.

Bent er á að almennt setja sveitarfélög mjög strangar reglur um framkvæmdir og starfsemi sem hafa áhrif í umhverfinu. Afla þar leyfa eða sækja um breytingu á deiliskipulagi. Aftur á móti má hefja gjaldtöku á bílastæðum án þess að spyrja kóng eða prest þrátt fyrir þau ruðningsáhrif sem slíkt hefur í nágrenninu.

Þróunin hefur leitt til höfrungahlaups bílastæðainnheimtu

Þessi þróun getur og hefur leitt til höfrungahlaups bílastæðainnheimtu. Nágrannar eða sveitarfélög þurfi að verjast með gjaldskyldu á móti, þannig að á endanum verði farið að rukka fyrir öll bílastæði sem ekki eru á einkalóðum.

Í gróðaskyni er verið að hefta það frjálsa flæði einkabílsins

Rík ástæða er til að vara við þessu. Hér á landi er mikil og almenn notkun einkabílsins. Ef borga þarf fyrir tilvist bílsins í hvert skipti sem fólk fer til vinnu, í heimsóknir til ættingja, í búðarferðir og þar fram eftir götunum, þá hefur það óhjákvæmilega áhrif til lengdar á val viðkomustaða og ekki síður búsetu.

Í gróðaskyni er verið að hefta það frjálsa flæði einkabílsins sem fólk hefur vanist og draga úr þeirri samkeppnishæfni þjóðfélagsins sem greiðar samgöngur skapa.

Í yfirlýsingu sinni hvetja FÍB og Neytendasamtökin til þess að gripið verði inn í þessa óheillaþróun með ákvæðum í deiliskipulagi.

Nánar er fjallað um málið í FÍB blaðinu sem verður dreift til félagsmanna 1. nóvember.

Deila grein: