Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, flutti erindi á morgunverðarfundi í morgun sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra boðaði til. Þar var fjallað um aðgerðir til að efla neytendavernd í tengslum við gjaldskyldu á bílastæðum.
Erindi Runólfs bar yfirskriftina ,,Bílastæðagræðingin. Auk Runólfs flutti ráðherra og Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu,erindi. Þetta er fyrirbæri sem flestir þekkja, þetta hefur gengið yfir land og þjóð eins og faraldur og var til eftirminnilegrar umfjöllunar í nýliðnu áramótaskaupi.

Í umfjöllun á Vísi um málið kemur fram í samtali við Runólf að græðgisvæðingin hefði sprungið út í upphafi árs 2024.
„Eða síðustu misserin. Upphafið eins og við þekkjum það í dag úti á landi var þegar þeir fóru að taka gjald á túnunum inni af Grindavík þegar menn voru að labba upp að gosi. Þá verður einhver sprengja og nú liggur við að þetta sé við hverja einustu náttúruvini sem þú finnur á landsbyggðinni.“
Runólfur segir í samtalinu við Vísi þetta viðtekið óháð þjónustustigi. Og það sem meira er, fjárfestingar séu farnar að snúast um bílastæðagjöld. Artic Adventures ehf hafi til að mynda keypt jörð við Fjaðraárgjúfur eftir að skattgreiðendur lögðu 73 milljónir til ferðamannastaðarins.
„Við heyrum að jörðin hafi verið seld á hátt í milljarð. Verð uppreiknað til núverandi verðlags var hátt í hundrað milljónir. Það er bara af því að þarna áætla menn að fá þrjú til fjögur hundruð milljónir í bílastæðagjöld á ári.“
Bílastæðagræðgin hefur breytt fasteignamati jarða
Þannig hafa bílastæðin gerbreytt öllum tölum í tengslum við fasteignaverð jarða. Runólfur nefnir annað dæmi sem er Seljalandsfoss og vísar til úttektar sem gerð var í síðasta FÍB-blaði. Þar koma tölurnar hreint og klárt fram hvað þessi bransi er að velta á landsbyggðinni.
Síðan er þessi græðgisvæðing í bænum sem er önnur en svipuð saga.
„Reykjavík ryður brautina með því að lengja bílastæðagjöldin yfir alla daga til klukkan níu á kvöldin.“
Óboðlegar innheimtuaðgerðir
Áhrifin af þessu eru ónæði þar sem ekki er gjaldskylda eða ruðningsáhrif en fólk leggur þá bílum sínum þar. Og innheimtuaðgerðir þessara fyrirtækja sem hafa gert sér mat úr þessu eru forkastanlegar að sögn Runólfs. Fólk fær vangreiðslugjöld af því að númeraplötur náðust á einhverja eftirlitsmyndavél. Krafan birtist skýringalaust í heimabanka: 4.500 upp í 7.500 krónur, takk fyrir.
„Við höfum kallað þetta villta vestrið. Það eru engar hömlur. Og nú eru peningaöflin komin inn í þessi fyrirtæki, þau eru fljót að renna á lyktina. Jón Ásgeir Jóhannesson fann lyktina af Parka. Þar sem peningarnir eru þar fara peningamennirnir inn. Skúli í Subway er einn stærsti aðilinn að Seljalandsfossfélaginu sem tekur bílastæðagjöld bara þar upp á einhverjar 400 milljónir á ári.“
Hann vísar í greinar í blaðinu, nokkur dæmi um gjaldtöku á ferðamannastöðum.
Bílastæðaástandið aðhlátursefni
Þannig er allt á eina bókina lært, græðgi í bland við heimóttarskap er efni í grín en hér er hins vegar um raunveruleika að ræða. Runólfur mun koma inn á þetta á fundinum. Hann nefnir að það hafi verið skipuð nefnd af hálfu atvinnuvegaráðherra í ágúst síðastliðnum sem átti að skila af sér eftir fimm vikur.
„Vonandi kynnir ráðherrann einhverjar niðurstöður á fundinum. Drög að reglum eru alltof veikluleg að okkar mati.“
Runólfur nefnir mýmörg dæmi, meðal annars frá hinu hálfopinbera fyrirtæki Isavia en á Leifsstöð ríkir hálfgert umsátursástand. Í síðasta áramótaskaupi gerðu höfundar sér einmitt mat úr þessu.
Runólfur segir að FÍB hafi sent inn kvörtun til neytendastofu vegna þessara fyrirtækja sem eru að innheimta bílastæðagjöld á höfuðborgarsvæðinu. Svo sem bílastæðagjöld við Domus Medica, þar afsökuðu menn sig með því að þar gengi nú betur að fá stæði. En af hverju er það þá 24 stunda gjald, spyr Runólfur.
Alltaf að bregðast við einhverju ástandi
Hann segist fyrir tilviljun þekkja til varðandi íbúð sem er í blokk við Snorrabrautina, sem skagar út í götu.
„Spurt var um bílastæði og þá var bent aftur á húsið, að þar væru fullt af bílastæðum. Bónus úti á Granda er annað dæmi. Þessu er alltaf ýtt lengra og lengra,“ segir Runólfur.
Og ekki bætir samkeppni allra fyrirtækjanna sem eru komin í þennan geira og vilja gera sér mat úr þessari tekjulind. Alveg eins og í Skaupinu.
Umfjöllun á Vísi í heild sinni má nálgast hér.







