Á fyrstu sex mánuðum þessa árs (2025) voru iðgjöld lögboðinna ökutækjatrygga 4,6 milljörðum króna umfram kostnað. Með sama framhaldi endar árið með því að oftekin iðgjöld verða á pari við hækkun veiðigjalda af sjávarútveginum.
Í FÍB-blaðinu, sem nýlega var dreift til félagsmanna, er fjallað ítarlega um mokstur tryggingafélaganna upp úr vösum bíleigenda. Það er fyrst og fremst í lögboðnum ökutækjatryggingum (skyldutryggingum) sem græðgi félaganna á sér engin takmörk. Frá 2022 til loka júní 2025 nema oftekin iðgjöld skyldutrygginganna 12,4 milljörðum króna. Þetta eru að jafnaði 295 milljónir króna á mánuði.
Engin samkeppni
Í ljósi þessarar góðu afkomu mætti halda að eitthvert tryggingafélaganna myndi reyna að lokka til sín fleiri viðskiptavini með lægri iðgjöldum. Sú er ekki raunin, bíleigendur finna lítinn mun milli tryggingafélaganna á iðgjöldum skyldutrygginga. Það kemur engum á óvart, í þau 30 ár sem FÍB hefur fylgst sérstaklega með tryggingafélögunum hefur meint samkeppni milli þeirra falist í öllu öðru en lækkun iðgjalda. Enda er það svo að iðgjöld bílatrygginga eru mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.
Í samanburði sem FÍB gerði síðastliðið sumar kom fram að hlutfall skyldutrygginga ökutækja af landsframleiðslu er 0,82% á Íslandi, 0,68% í Danmörku og 0,51% í Svíþjóð. Reiknað á hvern íbúa eru iðgjöldin að meðaltali 91.406 krónur á ári á Íslandi, 61.332 krónur í Danmörku og 37.335 krónur í Svíþjóð.
Tryggingafélögin safnað upp miklum sjóðum
Á grunni hárra iðgjalda hafa tryggingafélögin safnað upp miklum sjóðum sem þau ávaxta skattfrjálst. FÍB hefur lengi gagnrýnt þessa sjóðasöfnun á kostnað bíleigenda, en tryggingafélögin hafa setið á þeim sem fastast, dyggilega studd af Fjármálaeftirliti Seðlabankans.







