Þegar notandi hefur af misgáningi greitt fyrir annað bílastæði en bíl var lagt í, þá krefjast bílastæðafyrirtæki greiðslu fyrir „rétta“ bílastæðið ásamt vangreiðslugjaldi. Þau endurgreiða hins vegar ekki „röngu“ greiðsluna, heldur senda hana til eiganda bílastæðisins sem ekki var notað.
Þetta er ekkert annað en óþokkabragð. Greiðsla fyrir stæði hefur sannanlega verið innt af hendi (bara ekki fyrir rétt bílastæði) og er bílastæðafyrirtækinu í lófa lagið að miðla henni til viðeigandi aðila.
Fjöldi kvartana berst til FÍB og Neytendasamtakanna
Fjöldi kvartana berst til FÍB og Neytendasamtakanna vegna þessara óprúttnu vinnubragða. Félögin tvö birtu nýlega áskorun til bílastæðafyrirtækja um að láta af þessari hegðun. Nánast er um þjófnað að ræða, því bíleigandi er krafinn um að borga í tvígang, fyrir bílastæðið sem hann notaði og fyrir bílastæðið sem hann óvart borgaði fyrir – og er síðan krafinn um vangreiðslugjald.







