Skattabreytingar um áramót

Lestími: 2 mín

Eldsneytisverð lækkaði umtalsvert um áramótin. Lækkunin var fyrirsjáanleg þar sem lög um niðurfellingu vörugjalda á bensín og olíugjalds komu til framkvæmda í upphafi árs. Á sama tíma tóku gildi lög um kílómetragjald upp á 6,95 krónur á alla fólksbíla.

Eldsneytislækkun

Bensínið lækkaði hjá flestum um 95,60 krónur. Algengasta bensínverðið hjá Orkunni er núna 212 krónur á lítra en var 308,50 krónur í lok árs 2025. Ódýrasta bensínið hjá Orkunni er núna 183,10 krónur á lítra en ódýrasta bensínið á markaðnum er hjá Costco 171,10 krónur. Dýrastur er dropinn hjá N1 eða 214,70 krónur á lítra.

Dísilolían lækkaði mest um 87,30 krónur á lítra. Þar fór Atlantsolía á undan en aðrir lækkuðu minna í upphafi en bættu í þegar aðeins lengra var komið inn í nýja árið. Algengt verð á dísillítra hjá Atlantsolíu er núna 227 krónur en var 314,20 krónur. Hagstæðasta verðið hjá Atlantsolíu núna er 205,40 krónur á lítra en besta verðið á landinu er hjá Costco 193,30 krónur.

Mikill verðmunur

Margir útsölustaðir á landsbyggðinni bjóða aðeins upp á hærri verðin en íbúar á höfuðborgarsvæðinu njóta mestrar verðsamkeppni. Munurinn á dýrasta bensínlítranum hjá N1 og þeim ódýrasta hjá Costco er 43,60 krónur. Miðað við fjölskyldubíl sem ekið er 15.000 kílómetra á ári og eyðir 7 lítrum af bensíni á hverja 100 kílómetra þá sparast ríflega 65.000 krónur yfir árið ef hægt er að nýta ódýrasta dropann í stað þess dýrasta.

Eigendur eyðslufrekra bíla græða en aðrir borga umtalsvert meira

Skattabreytingarnar um áramótin koma mjög misjafnlega út gagnvart neytendum. Í grunninn mun orku og kílómetragjaldskostnaður verða hærri hjá öllum sem aka rafbílum, tengiltvinnbílum og léttum eyðslugrönnum bílum. Eigendur stórra, þungra og eyðslufrekra ökutækja munu eftir breytinguna njóta þess að borga umtalsvert minna vegna eldsneytisnotkunar og nýja kílómetragjaldsins heldur en þeir borguðu fyrir áramót.

Dæmi um reksturskostnað

Hér á eftir fara nokkur dæmi. Gengið er út frá því að ökutækin séu að aka 20.000 kílómetra á ári. Algengir rafbílar verða um 8% dýrari í rekstri. Þar munar mestu um tæplega 16% hækkun kílómetragjaldsins úr 6 krónum í 6,95 krónur. Tengiltvinnbílar sem geta ekið þriðjung ársakstursins á rafmagni verða um 16% dýrari í rekstri í ár samanborið við 2025. Þarna munar mestur um hækkun kílómetragjaldsins úr 2 krónum í 6,95 krónur á hvern ekinn kílómetra. Eyðslufrekur bensínbíll sem fer með 15 lítra á 100 kílómetra verður um 9,5% ódýrari í rekstri sem skilar um 85 þúsund króna sparnaði yfir árið samanborið við nýliðið ár. Litlir og eyðslugrannir bensín- og dísilbílar hækka í rekstri í kringum 60 þúsund krónur yfir árið og verða um 20% dýrari í rekstri.

Hvað varð um markmið stjórnvalda að draga úr mengun vegna samgangna á landi. Við skattabreytingarnar er bensínhákurinn verðlaunaður á kostnað rafbíla og eyðsluléttra fólksbíla. Það er ljóst að núverandi regluverk um kílómetragjald á fólksbíla tekur ekki tillit til jafnræðissjónarmiða og leggst þyngst á þá eldsneytisbíla sem slíta götum minnst og gefa frá sér minna af mengandi efnum í útblæstri.

Deila grein: