Í varfærinni áætlun FÍB-blaðsins kemur fram að gjaldtaka á bílastæðum á 43 ferðamannastöðum víða um land skili landeigendum um tveimur milljörðum króna í tekjur á ári. Umferðarmestu bílastæðin á Suðurlandi hafa samkvæmt þessu um eða yfir 300 milljónir króna í tekjur hvert fyrir sig.
Gjaldtaka á ferðamannastöðum hefur aukist mjög hratt
Gjaldtaka á ferðamannastöðum hefur aukist mjög hratt á allra síðustu árum. Sem dæmi má nefna að Parka rukkaði inn á 6 ferðamannastöðum árið 2022. Tveimur árum síðar, 2024, sá Parka um innheimtu á 31 ferðamannastað.
Varla er til sá áfangastaður ferðamanna á Suðurlandi þar sem ekki er rukkað inn á bílastæði. Þar til nýlega voru langflest þessara bílastæða gjaldfrjáls og ekkert sem gefur til kynna þörfina fyrir gjaldtöku aðra en þá að hagnast á ferðafólki. Nánast alls staðar er gjaldið 1.000 krónur, óháð gæðum bílastæða eða hvort þar er að finna salerni eða aðra þjónustu. Ofan á gjaldið bætast svo um 100 krónur fyrir að nota greiðsluapp til að borga fyrir stæðið.
Fram kemur í FÍB-blaðinu að á þessu ári hafi gjaldtaka hafist á bílastæðunum við Geysi. Þau stæði hafa lengi staðið gjaldfrjálst til boða fyrir ferðafólk, enda skapa þau mikil viðskipti við landeigendur við Geysi. Ekki er verið að leggja ný bílastæði, heldur aðeins byrjað að rukka inn á þau sem fyrir voru. Vegna þess fjölda sem sækir Geysi heim má búast við að bílastæðagjöldin skili landeigendum 300-400 milljónum króna á ári.







