Vangreiðslugjöldin eru hreinræktuð fjárplógsstarfsemi

Lestími: < 1 mín

Vangreiðslugjöld eru ekki innheimt þó einhver sleppi eða gleymi að borga fyrir bílastæði á Þingvöllum. Ekki heldur við Seljalandsfoss. Ef greiðsla hefur ekki borist innan sólarhrings, þá fær bíleigandinn senda kröfu í heimabankann að viðbættu 100 króna tilkynningargjaldi. Lengra er ekki gengið. Enda er það svo að langflestir borga fyrir afnot bílastæðanna og þjónustuna sem fylgir. Það er fyrirtækið Checkit sem annast gjaldtökuna á Þingvöllum og Seljalandsfossi, svo og á þremur ferðamannastöðum til viðbótar.

Þessu er öfugt farið þar sem Parka (Myparking) og Öryggismiðstöðin (Green parking og Sannir landvættir) annast gjaldtökuna. Til skamms tíma innheimtu þau vangreiðslu langt umfram kostnað, eða 4.500 krónur. Jafnvel þó fólk hafi borgað fyrir bílastæði, bara ekki valið rétt bílastæði, þá er það krafið um vangreiðslugjald og nýja greiðslu fyrir bílastæði að auki.

Eftir harða gagnrýni lækkaði vangreiðslugjaldið

Eftir harða gagnrýni hefur vangreiðslugjald Myparking (í eigu Parka) verið lækkað í 1.690 krónur. Green parking leggur á 4.500 króna vangreiðslugjald vegna bílastæða á lóð Landsbankans og 3.500 krónur í bílakjallaranum undir Hörpu, Reykjastræti og Hafnartorgi. Sannir landvættir leggja á 4.500 króna vangreiðslugjald á þremur ferðamannastöðum.

Samkvæmt innheimtulögum má innheimtugjald á borð við það sem felst í vangreiðslugjaldinu ekki vera hærra en 1.178 krónur. Ljóst er að allt umfram það er hreinræktuð fjárplógsstarfsemi. Parka/Myparking hefur að nokkru leyti séð að sér í þeim efnum, en fyrirtæki Öryggismiðstöðvarinnar ekki.

Deila grein: