Porsche að þróa þráðlausa hleðslu fyrir bíla

Lestími: < 1 mín

Porsche eru að þróa nýja þráðlausa hleðslutækni og kemur í formi gólfplötu. Þetta er alveg eins og Qi, þráðlausa hleðslutæknin fyrir síma, sem má m.a. finna í nýrri bílum í dag. Porsche Cayenne rafmagnsbíllinn mun koma með þráðlausri hleðslu fyrir þá sem vilja.

Bílaframleiðandinn fór í rannsóknarvinnu og komst að því að 75 prósent hleðsluferla í rafknúnum Porsche bílum fara fram heima. Þeir vildu því finna nýja tækni sem auðveldar hleðsluferlið töluvert. Ökumaður þarf einfaldlega að leggja bílnum fyrir ofan gólfplötuna, einfalt og þægilegt. Hægt er að setja upp gólfplötuna í bílskúrnum, bílakjallaranum eða í bílastæði utandyra. 

Hámarkshleðsluaflið er allt að 11 kW, þannig skilvirknin er svipuð og með hefðbundinni hleðslusnúru. Hleðsluferlið virkar þannig að bíllinn stoppar fyrir ofan gólfplötuna. Þráðlausa hleðslan verður að hafa stutt millibil til þess að virka, þannig þegar Cayenne hleður sig þá lækkar hann sjálfkrafa. Hleðsluferlið stöðvast sjálfkrafa ef lifandi dýr, eins og köttur, kemst á milli gólfplötunnar og bílsins eða ef málmhlutur liggur ofan á plötunni og hitnar.

Einnig hentug fyrir notkun utandyra

Þráðlausa gólfplatan er einnig hentug fyrir notkun utandyra. Bílaframleiðandinn hefur gefið fram að gólfplatan getur þolað allskonar veður, eins og rigningu og snjó. Akstur yfir gólfplötuna á ekki að skemma hana ef það skyldi gerast. 

Það er mikið af tækninýjungum í bílaiðnaðinum og þráðlaus hleðsla gæti verið spennandi viðbót fyrir framtíðina. Með þráðlausri hleðslu spara ökumenn sér tíma og þurfa ekki að berjast við hleðslusnúruna fyrir og eftir hleðslu. Hins vegar verður forvitnilegt að vita hvort gólfplatan þolir íslenskt veðurfar en vonandi skýrist úr því í framtíðinni.

Deila grein: