Deilur milli Evrópu og Kína um mikilvæga hálfleiðara gætu haft í för með sér miklar framleiðslutafir hjá evrópskum bílaverksmiðjum. Samkeppnisforskot evrópskra framleiðenda byggðist í áraraðir á brunahreyflinum en samfara aukinni rafbílaframleiðslu hefur evrópski iðnaðurinn misst forskotið.
Það tók evrópskan bílaiðnað mörg ár að ná sér eftir síðasta flöguskort í kóvitinu og nú gæti það gerst aftur. Nokkrir stórir bílaframleiðendur búa sig nú undir alvarlegar truflanir á starfseminni og það gæti hafist strax í næstu viku. Bílaframleiðendur og undirverktakar hafa verið á neyðarfundum til að undirbúa sig betur undir mögulegan íhlutaskort, segir í frétt á Bloomberg.
Neyðarlög og milliríkjadeilur
Vandamálið tengist sérstaklega tiltölulega óþekktu fyrirtæki í Hollandi, Nexperia, sem framleiðir hálfleiðara. Í desember 2024 var Wingtech, móðurfélag Nexperia, sett á amerískan „svartan lista“ yfir fyrirtæki sem lúta útflutningseftirliti. Þann 29. september var eftirlitið víkkað út til dótturfélaga fyrirtækja á listanum, þar á meðal Nexperia. Daginn eftir, 30. september, tók hollenska ríkið yfir Nexperia, með vísan í lög frá kalda stríðinu sem heimila slíka yfirtöku vegna þjóðaröryggissjónarmiða, og vísaði í „alvarlega stjórnunargalla“ hjá Nexperia. Nexperia var keypt af kínverskum fjárfestum árið 2019 og rekur verksmiðjur í Kína. Deilur milli Hollands og kínverskra eigenda Nexperia gætu leitt til framleiðslustöðvunar hjá mörgum bílaframleiðendum.

Kínverjar hafa brugðist við þessum aðgerðum Hollenskra stjórnvalda með því að stöðva útflutning á hálfleiðurum sem eru framleiddir í kínverskum verksmiðjum Nexperia. Þetta leiðir af sér að Nexperia getur ekki afhent tölvukubba. Fram kemur að birgðir séu aðeins nægar til að standa undir eftirspurn í nokkrar vikur til viðbótar. Þetta er vandamál sem hefur áhrif á mikinn fjölda birgja.

það sé sérstaklega erfitt að finna aðra valkosti fyrir vörurnar sem Nexperia framleiðir, og ein ástæða er sú að þetta er þróuð tækni á hagstæðu verði. Að auki eru flögur Nexperia innbyggðir í íhluti sem eru vottaðir samkvæmt gæða- og öryggisstöðlum í bílaiðnaðinum.
Haldist þetta ástand mun það koma illa niður á mörgum bílaframleiðendum og lengja afhendingartíma nýrra bíla.
Framleiðslustöðvun
Það er ljóst að birgðakeðjur eru enn þá verulegt vandamál í evrópskum bílaiðnaði. Eftir flöguskortinn 2021 voru gefin fögur fyrirheit af framleiðendum um að öryggi í evrópskri framleiðslu yrði markvisst aukið með því að efla íhlutaframleiðslu innan Evrópu. Þetta hefur ekki gengið nógu hratt og vel fyrir sig.

Samtök þýska bíliðnaðarins VDA segja að þetta geti raskað framleiðslu verulega og í verstu tilvikum geti komið til framleiðslustöðvunar ef ekki tekst að leysa úr Nexperia deilunni fljótlega.
Evrópsk fyrirtæki hafa reynt að auka framleiðslu í álfunni á drifrafhöðum sem eru um 30% af virðiskeðju rafbíla. Sem fyrr eru þau mjög háð Kínverskum og Kóreskum framleiðendum. Stór evrópskur rafhlöðuframleiðandi Northvolt í Svíþjóð fór í gjaldþrot núna í vor og önnur fyrirtæki t.d. PowerCo (VW) og Verkor (Renault) þurfa að ná meiri stærðarhagkvæmni til að auka samkeppnishæfni sína.
Ný tækni, endurvinnsla og sjálfbærni
Ný tækni og skilvirkari endurvinnsla gæti dregið úr magni sjaldgæfra hráefna sem þarf til framleiðslu rafbíla. Fyrirtækið ZF í Friedrichshafen í Þýskalandi hefur sem dæmi þróað rafmagnsmótor sem krefst engra sjaldgæfra jarðefnasegla.

Stefna evrópskra framleiðenda og stjórnvalda er að efla nýsköpun og tækniframfarir til að gera álfuna sem mest sjálfbæra og óháða innflutningi á sjaldgæfum jarðefnum og íhlutum. Iðnaðurinn er of háður Kína varðandi hráefni sem dregur úr samkeppnishæfni og ógnar störfum í evrópskum bílaiðnaði. Í ljósi nýjustu frétta eru greinilega miklar áskoranir fram undan.







