Lyten kaupir verksmiðju Northvolt í Póllandi — Ætla að framleiða brennisteinsrafhlöður

Lestími: 2 mín

Bandaríska fyrirtækið Lyten tekur yfir verksmiðju Northvolt í Gdansk til að flýta útbreiðslu eigin brennisteinsrafhlaðna í Evrópu.

Bandaríska rafhlöðufyrirtækið Lyten stækkar í Evrópu

Bandaríska fyrirtækið Lyten stígur stórt skref inn á Evrópumarkað með kaupum á rafhlöðuverksmiðju Northvolt í Gdansk í Póllandi, um þetta má lesa í fréttum Automotive News. Verksmiðjan er sú stærsta í Evrópu með allt að 6 GWh afkastagetu. Verksmiðjan í Gdansk verður miðstöð alþjóðlegrar útrásar Lyten og þar stendur til að framleiða svokallaðar brennisteinsrafhlöður í stórum stíl.

Northvolt varð gjaldþrota fyrir nokkrum mánuðum m.a. vegna of hraðs vaxtar. Lyten hafði áður keypt verksmiðju Northvolt í Silikon-dalnum í  Bandaríkjunum.

Lyten hyggst fyrst og fremst þjóna fyrirtækjamarkaði, m.a. gagnaverum, sjúkrahúsum og iðnaði. Til stendur að hefja framleiðslu á brennisteinsrafhlöðum í Póllandi 2026, en annar orkugeymsluvarningur Lyten verður komin í framleiðslu 2025. Stefnt er að því að auka framleiðsluna um nokkur hundruð megavattstundir árið 2026 og vaxa síðan hratt.

Pólland er valið vegna landfræðilegrar legu og til að mæta kröfum innan Evrópu um tryggar sjálfstæðar birgðakeðjur sem þurfa ekki að stóla á kínverska framleiðendur og birgja.

Brennisteinsrafhlöður Lyten eru léttari og ódýrari í framleiðslu en hefðbundnar litíumjónarafhlöður. Brennisteinn er mun ódýrara hráefni en nikkel og kóbalt, en spáð er að orkuþéttleiki þessara rafhlaðna muni aukast um allt að 20 prósent á árlega næsta áratug.

Samkvæmt skýrslu frá SolarPower Europe er spáð að evrópski markaðurinn fyrir rafhlöðugeymslu muni vaxa úr 61 gígavattstund (gWh) í 400 gígavattstundir fyrir árið 2030. Lyten ætlar sér stóran hlut í þeirri þróun á Evrópumarkaði og víðar. Ljóst er að samkeppni við kínverska framleiðslu og verð verður erfið fyrir marga á þessum markaði.

Úkraína og miðbaugurinn í sjónmáli

Áformin ná lengra en til Póllands, Lyten horfir einnig til Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Spánar og Úkraínu, auk útflutnings til ríkja við miðbaug.

Lyten spáir því að alþjóðlegi orkugeymslumarkaðurinn muni vaxa um 30–50% árlega. Verðmæti núverandi markaðar fyrir þessar vörur er áætlað um 55 milljarðar Evra sem gerir tæplega 8.000 milljarða króna.

Deila grein: