Rafbílar njóta góðs af hressilegri hröðun – getur lengt líftíma drifrafhlöðunnar

Lestími: < 1 mín

Það getur aukið líftíma rafhlöðu rafbíls að stíga af og til hressilega á straumgjöfina (orkufótstigið). Ný rannsókn frá Stanford háskóla bendir til þess að regluleg hraðaaukning og breytilegt álag geti aukið endingu drifrafhlaðna í rafbílum.

Ökumenn rafbíla eru margir tvístígandi varðandi það hvort hressileg inngjöf sé neikvæð eða jákvæð fyrir rafhlöðuna. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar vísindarannsóknar sem birt var í vísindaritinu Nature gæti þetta verið ástæðulaus ótti.

Kröftug afhleðsla góð fyrir rafhlöður

Í tvö ár rannsökuðu vísindamennirnir 92 mismunandi rafhlöður sem voru hlaðnar og afhlaðnar með misjöfnum aðferðum. Markmiðið var að fylgjast með því hvernig ástand drifrafhlöðu versnar með tímanum. Sumar rafhlöðurnar voru tæmdar með jöfnum straumi, eins og gert er í hefðbundnum prófunum, en aðrar með breytilegu álagi sem líkist meira raunverulegri akstursnotkun.

Niðurstaðan var nokkuð afgerandi. Rafhlöðurnar sem voru í breytilegri, dýnamískri, afhleðslu héldu allt að 38% betri rafhlöðuheilsu en þær sem voru tæmdar með stöðugum straum.

„Það kom okkur á óvart hversu mikið endingin jókst með dýnamískri afhleðslu,“ segja vísindamennirnir á bak við rannsóknina.

Hefðbundnar prófanir gefa ranga mynd

Rannsóknin leiddi einnig í ljós að hefðbundin rafhlöðupróf, þar sem afhleðslan er stöðug og jöfn, endurspegla ekki raunverulega notkun í akstri. Rafhlöður í rafbílum eru undir síbreytilegu álagi. Hröðunin er er mjög mismunandi í raunverulegum akstri. Er verið að hægja á hraða eða aka upp halla? Þetta misjafna álag virðist bæði skaðlaust og jákvætt fyrir endingu rafhlaðna.

Þessi rannsókn mun líklega hafa áhrif á prófanir og mat á endingu drifrafhlaðna í framtíðinni  og hvernig við hugsum um akstursnotkun rafbíla.

Athugið að allur akstur á vegum landsins verður að taka mið af gildandi umferðarlögum

FÍB

Deila grein: