Á sumrin ferðast margir í bílaleigubíl, á eigin bíl eða húsbíl um Evrópu. Sá sem er ekki meðvitaður um umhverfissvæði (Low Emission Zone) og vegtolla á þeim slóðum sem farið er um getur átt á hættu að fá háar sektir. Það er einnig hægt að draga úr kostnaði með því að forðast að aka um vegi og svæði þar sem vegtollar og veggjöld eru innheimt og með því að forðast akstur í borgum þar sem krafist er greiðslu vegna aksturs um miðborgarsvæði.
Því miður eru margir sem átta sig ekki á staðbundnum umhverfisgjöldum og reglum og lenda í að fá sendar sektir og kröfur eftir að heim er komið eftir gott frí
Hraðbrautargjöld eru í mörgum Evrópulöndum. Hefðbundnir vegir geta einnig verið gjaldskyldir og sama á við um jarðgöng, ferjur og brýr. Að auki er orðið algengt að borga þurfi í stærri borgum fyrir akstur um umhverfissvæði með staðbundnum reglum.

Veggjöld eru innheimt á mismunandi vegu. Sum lönd hafa mannaðar tollstöðvar við vegi. Í öðrum löndum þarf að kaupa svokallað Vignette, veggjalda ávísun, og fá límmiða sem er límdur inn á framrúðuna. Stundum er sjálfvirkt myndavélaeftirlit með ökutækjum. Þá þarf að hlaða niður rafrænni greiðslulausn, sem getur verið mismunandi eftir löndum. Greiðslulausnirnar eru virkjaðar með svipuðum hætti og bílastæðaöppin á Íslandi. Á öðrum svæðum þarf að greiða veggjald inn á reikning innan ákveðins tíma eða greiða með reiðufé á sérstökum greiðslustöðvum.
Það er á ábyrgð ökumanns að vera upplýstur um umferðarreglur og innheimtu gjalda og tolla á þeim slóðum sem farið er um
Margar borgir í Evrópu takmarka bílaumferð um miðbæi. Stundum er bann á bíla sem uppfylla ekki útblástursviðmið og einni er bann á ökutæki sem ekki hefur verið aflað tilskilinna leyfa með greiðslu til aksturs um svæðið. Víða eru kröfur um sérstaka umhverfismiða sem líma þarf á áberandi stað í framrúðu bíls.


Það er á ábyrgð ökumanns að vera upplýstur um umferðarreglur og innheimtu gjalda og tolla á þeim slóðum sem farið er um. Það eru ekki til staðar neinar samhæfðar reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins um tolla- og gjaldafrumskóginn í Evrópu. Ef ökumaður fer án leyfis um gjaldsvæði eða er á ökutæki sem ekki má aka um ákveðið svæði vegna útblásturskrafna þá kemur sekt sem verður að greiða. Ef sektinni er ekki sinnt getur það kostað viðbótar kröfu um hátt vangreiðslugjald.
Veggjöld og umhverfissvæði á vinsælum áfangastöðum:
- Belgía: Skráð erlend ökutæki sem aka inn í Antwerpen, Brussel eða Gent verða að uppfylla útblásturskröfur. Skrá þarf ökutækið inn í sérstakan gagnagrunn án endurgjalds. Dísilbílar í Euro 4 útblástursflokki eða lægri greiða gjald.
- Danmörk: Dísilknúnir bílar verða að uppfylla að minnsta kosti Euro 5 kröfur til að mega aka um umhverfissvæði í Kaupmannahöfn, Óðinsvéum, Árósum og Álaborg. Eftirlitið er rafrænt.
- Frakkland: Nokkrar borgir hafa innleitt sérstök umhverfissvæði, Zones à circulación restreinte. Til að aka um umhverfissvæði þarf að festa límmiða – Vignette Crit´Air – á framrúðuna. Á nokkrum svæðum eru tímabundin, veðurháð umhverfissvæði, zone de protection de l´air, sem hægt er að virkja frá einum degi til annars.
- Ítalía: Bannskiltið Zona Traffico Limitato má sjá í mörgum ítölskum borgum. Sá sem brýtur gegn banninu verður ljósmyndaður og sektin send heim til viðkomandi innan Evrópu. Ef ekið er fram hjá ZTL-skiltinu nokkrum sinnum kemur ný sekt í hvert skipti.
- Holland: Umhverfissvæði með dísilbanni (Milieuzonen). Á við um dísilbíla og þyngri ökutæki. Eftirlit er með sjálfvirkum vegmyndavélum.
- Noregur: Veggjöld eru kölluð Bompengar og eru nokkuð algeng. Ef ekið er á fólksbíl um Noreg er einfaldast að hlaða niður rafrænni greiðslulausn með bílnúmeri og greiðsluupplýsingum (sambærilegt við bílastæðaapp).
- Portúgal: Nokkrar borgir hafa takmarkandi umferðarsvæði, þar á meðal Lissabon, þar sem eldri ökutækjum er ekki heimilt að aka af umhverfisástæðum.
- Spánn: Stærri borgir hafa innleitt láglosunarsvæði sem krefjast losunarmiða – Distintivo Ambiental – á bílinn. Svæðin eru í fjórum stigum, þar sem hæsta stigið leyfir aðeins rafbíla. Erlend ökutæki geta ekki fengið spænsku umhverfismiðana, en umhverfismiðar frá Þýskalandi og Frakklandi eru samþykktir. Einnig eru til staðar reglugerðir, svo sem ýmis akstursbönn í miðborg Madríd, Barcelona og hluta af Valencia.
- Þýskaland: Um sjötíu þýskar borgir hafa innleitt umhverfissvæðin Umweltzonen. Til að aka um umhverfissvæði þarf að setja límmiða – Feinstaubplakette – á framrúðuna. Þetta á einnig við um rafbíla.
- Frakkland, Ítalía, Spánn, Portúgal: Flestir hraðbrautir eru í eigu og viðhaldi einkafyrirtækja. Vegtollur er greiddur með reiðufé eða greiðslukorti á mönnuðum tollstöðvum á veginum eða þegar beygt er af vegi. „Frjáls flæði“ með greiðslu á netinu eða á sérstakri þjónustustöð er að verða aðgengilegra og algengara.
- Austurríki, Sviss, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía, Ungverjaland: Þegar ekið er á hraðbrautum er krafa um fyrirfram greiddan límmiða á framrúðunni eða stafræna útgáfa af rafrænni vignettu. Vínjettur eru fáanlegar í styttri eða lengri tíma. Í Sviss aðeins hægt að kaupa heilt ár í senn og ökutæki án tollamiða fá sektarkröfu. Húsbílar yfir 3.500 kg að þyngd geta þurft að greiða til viðbótar kílómetragjald.
- Búlgaría, Rúmenía: Vínjettukerfi fyrir alla vegi, ekki bara hraðbrautir.
- Pólland, Króatía, Serbía, Norður-Makedónía, Grikkland, Tyrkland: Gjaldskyldar hraðbrautir að fullu eða að hluta. Greiðsla á mönnuðum tollstöðvum.

Almennt yfirlit yfir útblástursflokka fólksbíla:
Ár | Bensínbílar | Dísilbílar |
1997 | Umhverfisflokkur 1 ≈ Euro 2 | Umhverfisflokkur 1 ≈ Euro 2 |
2000 | Umhverfisfl. 2000 ≈ Euro 3 | Umhverfisfl. 2000 ≈ Euro 3 |
2005 | Umhverfisfl. 2005 ≈ Euro 4 | Umhverfisfl. 2005 ≈ Euro 4 |
2009 | Euro 5 | Euro 5 (með DPF) |
2014 | Euro 6 | Euro 6 |
2019 | Euro 6d-TEMP | Euro 6d-TEMP |