N1 dæla við Ægisíðu í Reykjavík

Skýrt dæmi um peningaplokk olíufélaganna

Lestími: < 1 mín

Fréttasíðan FF7.is birti í gær sláandi staðfestingu á þeirri aðferðafræði olíufélaganna að lækka ekki verð á eldsneyti þó heimsmarkaðsverð eða gengi gjaldmiðla lækki.

Í greiningu Helga Frímannssonar verðbréfasérfræðings á afkomu N1 kemur fram að á öðrum ársfjórðungi 2025 (apríl til júní) hafi heildartekjur af sölu eldsneytis og rafmagns aðeins hækkað um 1,5% miðað við sama tíma í fyrra. Aftur á móti skilaði þessi sala 400 milljónum meira í framlegð en árið áður. Lækkun á heimsmarkaðsverði um 17-21% og styrking gengis krónunnar á móti dollar um 12% skilaði sér því ekki til viðskiptavina N1 heldur rann beint til fyrirtækisins.

Í greiningu sinni á FF7.is segir Helgi Frímannsson þetta: „Það er gömul saga og ný að olíuverð á dælu fylgir hækkunum á heimsmarkaði og veikingu krónunnar yfirleitt mun betur en þegar þróunin er í hina áttina. Þetta uppgjör hjá N1 er vísbending um að slík tilgáta sé ekki fjarri lagi.“

Á öðrum ársfjórðungnum var framlegð N1 af sölu eldsneytis 22,4% og hafði hækkað úr 18,9% frá sama tíma árið áður. Framlegð segir til um tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði.

Ný aflögð bensínstöð N1 við Ægísíðu 102 í Reykjavík. Fljótlega hefjast byggingaframkvæmdir á lóðinni.
Festi móðurfélag N1 áformar að byggja 31 íbúð og endurnýjta hina sögulegu bensínstöð og fá henni nýtt hlutverk sem menningarmiðstöð og kaffihús. Gert er ráð fyrir aðeins 34 bílastæðum í bílageymslu.

Fram kemur hjá Helga í greiningunni á FF7.is að Festi, móðurfélag N1, áætli að rekstrarhagnaður þessa árs verði á bilinu 15,2 til 15,6 milljarðar króna. Það er 23,1% meiri áætlaður hagnaður en var í fyrra. Auk N1 rekur Festi Krónuna, Elko og Lyfju.

Deila grein: