El Prix 2026 rafbílaprófunin sem NAF systurfélag FÍB í Noregi skipuleggur er núna í gangi. Það eru 24 rafbílar sem taka þátt í prófuninni og tveir keppendur í hverjum bíl. Meðal keppenda er Björn Kristjánsson tækniráðgjafi FÍB á Xpeng x9.

Þessar prófanir leiða í ljós að rafbílar tapa almennt drægni í vetrarakstri vegna orkunotkunar til hitunar og meiri mótstöðu. Verið er að mæla raunverulega drægni við krefjandi aðstæður.
Keppnin hófst með hringakstri um Osló upp að þjóðvegi 4 til Gjøvik, þaðan E6 upp til Hjerkinn, síðan austur til Folldal og í átt að Venabygdsfjellet. Bílarnir sem enn verða með orku til aksturs snúa við í Rondane Gjestegård og keyra síðan til baka í átt að Hjerkinn. Þaðan er ekið þar til þeir verða orkulausir.
Ökumenn nota þær snjallstillingar sem eru í boði í bílunum til að spara orku í þéttbýli. Á þjóðvegum er notaður hraðastillir þar sem það er hægt. Bílunum er ekið í venjulegri (normal) stillingu. Bíll telst hafa lokið keppni þegar hann missir afl og getur ekki lengur haldið hraðamörkum.
Mikið frost

Það er ekið við krefjandi aðstæður. Það er mjög kalt í veðri frá 13 til 28 gráður undir frostmarki. Keppendur munu aka í borgarumferð og síðan á þjóðvegum. Töluverðar hæðarbreytingar eru á leiðinni.
Í síðustu vetrarprófunum NAF lækkaði hitastigið ekki mikið undir mínus 10 gráður. Í þessari könnun er frostið að fara í allt að mínus 28 gráður. Frostið mun draga úr drægni keppnisbílanna og það verður fróðlegt og upplýsandi að sjá niðurstöðurnar.
Hver sigrar?
Það eru þrjár leiðir til að skoða þessa prófun og niðurstöðurnar:
Eðlilegt er að beina athyglinni að þeim bíl sem ekur lengst þegar svona margir bílar eru að taka þátt. Sá bíll verður eins konar „sigurvegari“.
Mikilvægasti mælikvarðinn er frávikið frá uppgefnum WLTP gildum. WLTP- gildið fyrir orkunotkun er notað í allri markaðssetningu ef talan er góð. WLTP gildið er mikilvæg vísbending um drægni og El Prix drægniprófið gefur vísbendingu um hversu raunveruleg þessi tala er við þær aðstæður sem ekið er í dag í Noregi. Þess vegna telur NAF að bíllinn sem er með mesta jákvæða (eða minnst neikvæða) frávikið sé hinn raunverulegi sigurvegari.
Það er einnig mjög áhugavert að bera saman útkomu sambærilegra bíla í prófuninni. .
Kuldinn eykur spennuna og það er líka margt annað sem er áhugavert að fylgjast með.
Hvernig mun Suzuki eVitara standa sig? Þetta er systurbíll Toyota Urban Cruiser, sem margir Norðmenn hafa pantað og mun að óreyndu njóta vinsælda á Íslandi.
Hvernig gengur litla Hyundai Inster þegar hann ekur út úr borginni og upp Gudbrandsdalen sem er mjög vetrarþungur núna. Hvenær kemur hann til Vinstra?
Hvernig endar fjölskyldubílaflokkurinn, þ.e. bílar með gott rými, fjórhjóladrif og góða drægni? Hér finnum við fimm augljósa keppinauta. Viðmiðunarbílinn er toppsölubíllinn Tesla Model Y. Ford Capri er örlítið dýrari og Opel Grandland kostar svipað. Smart#5 er aðeins hagstæðari í verði og MGS6 EV er á enn hagkvæmara verði.
Hvernig gengur Kínversku bílunum í fimbulkuldanum? NAF hefur gagnrýnt sumt við reynsluakstur á nýjum kínverskum gerðum. Meðal þátta sem má nefna er of lítilli loftkæling og orkutap. Nú verður spennandi að sjá árangur MGS6 EV, Changan Deepal S05, Voyah Courage og Mazda 6e, sem er í rauninni líka Changan.







