Svipting ökuréttinda í einu Evrópulandi mun gilda um alla Evrópu innan fárra ára. Þetta á m.a. við um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna sem og hraðakstursbrot, þar sem refsingin er a.m.k. þriggja mánaða svipting ökuleyfis. Drög að nýjum reglum hafa nú fengið formlega samþykkt. Ísland fellur undir þessa samþykkt þar sem landið er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. ADAC systurfélag FÍB í Þýskalandi telur að það taki a.m.k. þrjú ár að innleiða breytingarnar innan Evrópu.

Öfugt við það sem margir telja þá gilda refsingar vegna grófra hraðakstursbrota, ölvunaraksturs eða annars ólöglegs aksturs aðeins í því landi þar sem ökumaður braut af sér. Þetta þýðir að íslenskur ökumaður sem er sviptur ökuréttindum vegna hraðaksturs á Ítalíu getur endurnýjað ökuskírteinið sitt heima og haldið áfram að aka í öðrum Evrópulöndum. Hér á landi getur ökumaður ekið sem fyrr og veifað stafrænu ökuskírteini sé þess óskað. Í dag er ekkert samstarf um miðlun upplýsinga um þessi lögbrot á milli landa. Í framtíðinni munu akstursbönn gilda yfir landamæri.
Í framtíðinni munu akstursbönn gilda yfir landamæri innan Evrópu
FÍB líkt og systurfélögin innan FIA í Evrópu telja rétt að innleiða þessar breytingar. Samhæft regluverk í Evrópu varðandi alvarleg umferðarlagabrot og sviptingu ökuréttinda stuðlar að auknu umferðaröryggi. Forvarnargildi refsingar fer fyrir lítið ef hægt er að fara yfir landamæri og halda áfram eins og ekkert hafi gerst.