Þann 17. október sl. birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) tölfræðigögn um stöðu umferðaröryggismála innan ríkja sambandsins á síðasta ári, 2024. Samkvæmt skýrslunni létust 19.940 manns í umferðarslysum innan ESB, sem er 2% fækkun miðað við árið 2023 (20.400 dauðsföll). Þetta sýnir hægfara þróun í átt að núllsýnar (Vision Zero) markmiðum ESB í umferðaröryggismálum. Markmiðið er að helminga dauðsföll og alvarleg meiðsli í umferðinni fyrir árið 2030 og útrýma þeim fyrir árið 2050.
Meðaltalið í dag innan Evrópusambandsins er 45 dauðsföll á hverja milljón íbúa. Í Frakklandi voru 48 dauðsföll á hverja milljón (+1%), sem er örlítið yfir meðaltali ESB. Öruggustu vegirnir voru í Svíþjóð (20/milljón) og Danmörku (24/milljón). Hæsta dánartíðnin var í Rúmeníu (78/milljón) og Búlgaríu (74/milljón).
Ísland í samanburði við Norðurlöndin
Til samanburðar þá létust 13 í tíu umferðarslysum á Íslandi árið 2024. Miðað við mannfjölda hér á landi 1. janúar 2025 (389,444) þá gerir þetta 33 dauðsföll á hverja milljón íbúa. Þetta er betra en meðaltalið innan Evrópusambandsins en mun lakara en það sem við sjáum á hinum Norðurlöndunum. Hér fyrir ofan má sjá tölurnar fyrir Svíþjóð og Danmörku en í Noregi var hlutfallið best eða 16 dauðsföll í umferðinni á hverja milljón íbúa. Finnar voru með 32 látna í umferðinni á milljón íbúa.
Þar sem mannfjöldi hér á landi er lítill þá eykur það mögulegar skekkjur í tölfræðinni og þess vegna er stundum miðað við meðaltal 5 ára. Meðaltal látinna í umferðinni á Íslandi frá 2020 til 2024 er 9,4 dauðsföll í umferðinni. Miðað við meðaltal mannfjölda gerir það 26 látna í umferðinni á hverja milljón íbúa.

Marktækur bati náðist í Litáen (-22%), Lettlandi (-19%) og Austurríki (-13%), en aukning varð í Eistlandi (+17%) og á Kýpur (+21%).
Bráðabirgðatölur fyrir fyrri helming ársins 2025 sýna breytilega þróun en það er jákvæð fækkun dauðsfalla í Grikklandi, Tékklandi, Eistlandi, Póllandi, Portúgal, Rúmeníu og Slóvakíu, sem undirstrikar nauðsyn stöðugrar árvekni í umferðaröryggismálum.







