Ábendingar til ökumanna áður en ferðalagið hefst

Lestími: 3 mín

Verslunarmannahelgin er ein mesta ferðahelgi ársins. FÍB beinir því til ökumanna sem ætla að vera á ferðinni að gefa sér nægan tíma áður en haldið er út í umferðina. Munið að taka enga áhættu með framúrakstri, stillið hraðanum í hóf og spennið beltin. Markmiðið er að njóta ferðalagsins og tryggja að allir komi heilu og höldnu á áfangastað.

Þeir sem hyggja á ferðalag á heimilisbílnum ættu að athuga ástand bílsins áður en lagt er af stað. Það er erfitt ef bíll bilar á ferðalagi og fjarri heimili. Það er minna framboð á bílaþjónustu víða um land yfir sumarleyfistímann hvað þá utan hefðbundins þjónustutíma. Óvænt bilun skapar fyrirhöfn og oft óvænt og jafnvel mikil útgjöld.

Félagar í FÍB njóta þess að hafa aðgang að neyðarþjónustu FÍB Aðstoðar allan sólarhringinn 365 daga ársins. Aðstoðin er án endurgjalds fyrir FÍB félaga innan þjónustusvæða FÍB Aðstoðar í samræmi við skilmála. Sama á við um símaaðstoðina sem veitir góð ráð og upplýsingar um þjónustuaðila. Símanúmer FÍB Aðstoðar er 5-112-112. Sjá nánar um FÍB Aðstoð.

Hlöðum bílinn rétt

Á ferðalögum er bíllinn oftast meira hlaðinn farangri og vegir misgóðir þannig að álagið er meira en við daglegan akstur. Passa þarf sérstaklega hvernig farangri, búnaði og vistum er hlaðið í bílinn og tryggja að ekki séu lausir hlutir í farþegarými.

Þar sem uppgefin hleðsluþyngd flestra rafbíla er minni en þyngd bensín- og dísilbíla þarf að huga vel að hleðslu og þyngd rafbíla. Það getur falist ákveðinn ómöguleiki í því að ná að hlaða bílinn með öllu útilegudótinu og kjarnafjölskyldunni áður en lagt er af stað í ferðalagið.

Ferðavagnar s.s. hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagnar geta aukið þyngd bíls verulega. Flestir dráttarkrókar á fólksbílum eru yfirleitt ekki gefnir upp fyrir meira en 70-100 kg. Því skiptir miklu máli að raða þyngdinni jafnt í vagninn.

Setja á stóra og þunga hluti eins langt niður og framarlega í skottið og mögulegt er og  fylla síðan í kring með léttari hlutum. Að festa farminn með ólum eða farangursneti dregur úr líkum á að farangurinn færist til og eykur öryggi.

Vegagerðin, rauntímaupplýsingar, færð, veður o.fl

Á umferdin.is, upplýsingavef Vegagerðarinnar, eru rauntímaupplýsingar um færð og veður, tilkynningar um lokanir og opnanir á vegum og jarðgöngum. Þar eru einnig upplýsingar um framkvæmdir á vegum og áhrif þeirra á hraða eða takmarkanir á umferð. Einnig er hægt að hafa samband við 1777, þjónustusíma Vegagerðarinnar, sem er opinn frá klukkan 06.30-20:00 alla daga.

Dekkin

Mikið hefur verið leitað til félagsins vegna dekkjavandamál. Flestir nýlegir bílar eru ekki með varadekk, tjakk eða felgulykil. Þetta á bæði við um dekk undir bíla og ferðavagna. Margir eru með neyðar viðgerðarefni eða dekkjakvoðu og loftdælu sem ætluð er fyrir sprungin dekk. Mikilvægt er að kynna sér vel hvernig á að nota loftdæluna og þéttiefnið. Dekkjaþéttiefni gerir lítið gagn ef rifa kemur á hlið dekks. Stundum er hægt að bjarga sér með dekkjatöppum og lími ef gat kemur á hlið og þá þarf einnig að hafa loftdælu til að blása upp dekkið. Dekkjaviðgerðarsett fást hjá varahlutaverslunum og á einstaka þjónustustöðvum olíufélaga.

Varadekk eða neyðardekk, tjakkur og felgulykill, á helst að vera hluti af búnaði allra bíla á ferðalagi um vegi Íslands. Ísland býr við óvenju slæma vegi og hátt hlutfall malarvega í samanburði við flest lönd í Norður Evrópu. Slæmir vegir auka líkurnar á dekkjavandræðum.

Dekk verða að vera í lagi. Munsturdýpt má ekki vera minni en 1,6 mm. Ef framundan er langt ferðalag er ekki óeðlilegt að miða við 2-3 mm munsturdýpt til að mæta dekkjasliti á ferðalaginu. Álag og slit á hjólbörðum eykst í hlutfalli við þyngd farþega og farangurs.

Bjarnarfjörður á Ströndum

Kannið loftþrýsting dekkja og athugið ástand varahjólbarða. Loftþrýsting þarf að auka ef bifreiðin er mikið hlaðin. Sé loftþrýstingur of mikill eða of lítill minnkar snertiflötur hjólbarðanna og um leið veggrip þeirra.

Yfirleitt eru upplýsingar um réttan loftþrýsting að finna í handbók bílsins en einnig má leita upplýsinga hjá bílaumboðum og hjólbarðaverkstæðum.

Verkfæri og öryggisbúnaður

Yfirfarið verkfærasett bílsins. Gott er að smyrja tjakkinn og jafnvel fleiri verkfæri. Eftirfarandi verkfæri er ráðlagt að hafa í bílnum: Felgulykil, skiptilykil, átaksstöng, kertalykil, skrúfjárnasett, bittöng, loftþrýstingsmæli og vasaljós.

Það er skylda að hafa viðvörunarþríhyrning í öllum bílum og að auki mælum við hjá FÍB með því að í bílnum sé sjúkrataska (-kassi), öryggisvesti, dráttartóg, bensínbrúsi og ekki gleyma sólgleraugunum.

Mikið og gott úrval öryggisvara fæst í verslun FÍB Skúlagötu 19 í Reykjavík og í netverslun.

Ábending

Bíleigendur geta farið yfir ástand bílsins að hluta sjálfir en hemla og annan öryggisbúnað á að láta fagmenn athuga.

Ekki snerta bílinn eftir að búið er að neyta áfengis. Látið snjallsíma og samfélagsmiðla eiga sig á meðan á akstri stendur.

FÍB hvetur vegfarendur til að fara varlega í umferðinni um verslunarmannahelgina, stilla hraða í hóf og njóta ferðalagsins.

Umferðarlögreglan á vaktinni

Góða ferð!

Deila grein: