Rafbílar og bensínbílar eru jafn varasamir
Að vera í rafbíl sem lendir undir vatni er ekki hættulegra en að lenda í vatni í bensínbíl. Í báðum tilvikum er mikilvægt að koma sér út um hliðarrúðu sem allra fyrst.
Sem betur fer lenda mjög fáir ökumenn í því að missa bíl á kaf í vatn. Aðstæður eru oft mjög erfiðar sérstaklega ef veður er mjög slæmt.
ADAC systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur rannsakað hvað gerist þegar bíll fer í vatn. Mun hann sökkva strax? Á að opna hurð eða glugga? Hversu langan tíma hefur maður til að bjarga sér? Hvernig á að bregðast við aðstæðum og hvernig bregst bíllinn við? Er munur á rafbílum og bensínbílum þegar þeir sökkva í djúpt vatn?
Alvarleg slys
Það voru skráð 33 tilvik í Þýskalandi árið 2024 þar sem bílum var ekið í vatn og 11 manns létust í þessum slysum. Í níu tilvikum endaði bill í stöðuvatni eða tjörn en í 20 tilvikum var ekið út í straumvatn, fljót eða síki.
Það er vel þekkt hér á landi að ökumenn missi stjórn á bíl við það að aka yfir straumvatn. Mörg alvarleg slys og banaslys hafa átt sér stað við þessar aðstæður en oftast er hægt að bjarga fólki en munatjón geta verið verulegt. Allt of oft berast fréttir að bílum sem aka fram af bryggjum. Í frétt í Morgunblaðinu í lok mars 2024 kom fram að alls voru skráð 25 slys hjá Samgöngustofu undir flokknum ,,ekið fram af bryggju” á tímabilinu 1. október 2003 til 30. september 2023. Fimm banaslys, eitt slys með alvarlegum meiðslum, þrjú með litlum meiðslum og 16 atvik án meiðsla. Eitt átakanlegasta slysið varð í Eyjafirði í nóvember 2017 þegar þriggja manna fjölskylda lést eftir að bifreið þeirra fór fram af bryggjunni á Ásskógssandi.
Aukin hætta á því að lenda í vatni
Það hefur aukist að bílar lendi í vandræðum vegna slæms veðurs eðs flóða í Evrópu. Að að missa bíl út í sjó á hafnarsvæði er þekkt. Sænsk rannsókn leiðir í ljós að flestir sem látast í bílum sem fara undir vatn komast ekki út og drukkna. Í 65 prósent tilvika var vatnið minna en tveir metrar á dýpt.
Kanadísk rannsókn sýnir að mikið skortir á þekkingu ökumanna varðandi viðbrögð lendi bíll í vatni. Þeir vanmeta hættuna og þann tíma sem þeir hafa til að bjarga sér.

Bíll sekkur á 3-4 mínútum
Prófanir ADAC hafa dregið fram margar staðreyndir. Í rannsókninni var bílunum ekið í vatn frá rampi. Miðað við forsendur rannsóknarinnar mun það taka 3-4 mínútur fyrir bíl að sökkva.
Í rannsókninni var notast við rafknúinn Citeoën ë-C4 sem sökk á þremur mínútum og léttari bensínbíl Seat Exeo sem flaut á yfirborðinu um mínútu lengur. Báðir sukku hratt, með framendann fyrst.
Það er grundvallar niðurstaða í prófun ADAC að fara út um næstu hliðarrúðu. Fyrst þarf að losa öryggisbeltið eins fljótt og auðið er eftir að bíll er kominn út í vatn.

Farið út úr bílnum innan fyrstu mínútu
Aðferðin er að losa öryggisbeltið og rúlla niður bílrúðunum eins fljótt og auðið er. Ef börn eru í bíl á að huga að björgun þeirra fyrst út um hliðarrúðurnar og síðan fylgja fullorðnir í kjölfarið.
Flóttaleið hliðarrúða
Að opna hliðarrúðurnar eins fljótt og auðið er er mikilvægt af tveimur ástæðum: Flestir bílar í dag eru búnir rafdrifnum rúðum. Þær virka líklega aðeins í stuttan tíma undir vatni. Vatnsþrýstingur á rúðu eykur á vandann við að opna og brjóta hana.
Ef hliðarrúðan opnast ekki þarf að reyna að brjóta hana. Mikilvægt er að hafa neyðarhamar í bílnum sem einnig er með beltishníf til að skera í sundur öryggisbelti. Hugsanlega er hægt að nota járnið undir útdregnum höfuðpúða ef það er ekki of tímafrekt að draga hann út eða annað oddhvasst og þungt.
Vandamál með tvöfaldar rúður
Það er auðveldast að brjóta rúðu í horni. Þetta sannaðist vel í ADAC rannsókninni í prófunar bílunum. Hins vegar eru margir nýir og dýrir bílar með tvöfaldar rúður. Þetta er hugsað til þæginda, bætir hljóðvist, eykur endingu og gerir það mun erfiðara að brjótast inn í bíl með því að brjóta hliðarrúðu.
Bíleigendur ættu að kynna sér hverrar gerðar hliðarrúður bílsins eru. Það er hægt að sjá hvort um er að ræða lagskipt eða tvöfalt gler ef merkingin “XI” er prentað eða grafið í rúðuna. Þetta er einnig hægt að kynna sér með því að hafa samband við umboð ökutækisins.

Hvorki hurðir né framrúða
Að fara út um framrúðuna er ekki valkostur því þær eru lagskiptu gleri og því óbrjótanleg fyrir manneskju í umflotnum bíl. Eina undantekningin frá þessu gæti verið ef bíll er nokkurra áratuga gamall. Það er þó mjög hæpið á sama tíma og bíllinn er að sökkva með framendann á undan sér. Þetta veldur vandamálum jafnvel fyrir björgunarkafara.
Að opna hurðir er einnig aðeins hægt að reyna ef innréttingin er full af vatni. Annars er vatnsþrýstingurinn of hár. Þetta var staðfest með ADAC rannsókninni. Eftir að þrýstingurinn var jafnaður þá tókst ökumanni með köfunarbúnað að opna en líklega aðeins vegna þess að hann gat andað með köfunarbúnaði.
Öryggisbelti, rúður, farþegar, út!
Ef farið er með bíl þegar hann sekkur til botns þá eru horfurnar ekki góðar. Rannsóknir ADAC sýna að þrýstingurinn jafnast ekki fyrr en eftir 4,36 mínútur. Samkvæmt rannsókninni hafði ökumaður þá verið undir vatni í 1,37 mínútur.
Það er mikilvægt að vera undirbúinn og láta aðstæður ekki koma sé úr jafnvægi. ADAC mælir með því að ökumenn æfi sig í aðgerðinni, öryggisbelti, rúður, farþegar, út!