GÖNGUM Í SKÓLANN – börn hvött til ferðast á öruggan hátt í umferðinni

Lestími: < 1 mín

Hið árlega verkefni GÖNGUM Í SKÓLANN var ræst í dag, föstudaginn 5. september, í Grunnskóla Vestmannaeyja. Þetta er í nítjánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi.

Megin markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar og að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og það hversu “gönguvænt” umhverfið er.

Fjöldi skóla sem tekur þátt hefur fjölgað jafnt og þétt með árunum en fyrst þegar verkefnið fór af stað árið 2007 tóku 26 skólar þátt og í fyrra voru alls 77 skólar skráðir til þátttöku. Það er einfalt að skrá skóla til þátttöku, það eina sem þú þarft að gera er að smella hér og fylla inn nokkrar upplýsingar um skólann.

Þrír skólar verða dregnir út í lok átaks og fá þeir hver um sig inneign uppá 150.000 kr. frá Altis fyrir vörum sem nýtast í íþróttakennslu eða í frímínútum. Göngum í skólann er styrkt af Íþróttaviku Evrópu – European week of sport (European Commission)

Deila grein: