Vegna framkvæmda við byggingu nýrrar vegbrúar yfir Breiðholtsbraut eru nú hæðaslár sitthvoru megin við framkvæmdasvæðið til að varna því að ökutæki rekist í brúna. Einnig er búið að setja upp ljós og upplýsingaskilti til að vekja athygli vegfarenda á þessum hæðatakmörkunum.
Ef keyrt er á hæðaslárnar fer af stað hljóðmerki til að vara fólk að störfum við yfirvofandi hættu. Þetta er gert til að tryggja öryggi vegfarenda og þeirra sem starfa við brúarsmíðina. Mikil hætta getur skapast ef ökumenn bíla með of háan farm keyra undir vegbrúna þar sem fólk er við vinnu. Stefnt er á að steypa vegbrúna í október en hún er hluti af framkvæmdum vegna nýs Arnarnesvegar.
Umferð hefur verið færð yfir á syðri akreinar Breiðholtsbrautar vegna framkvæmdanna en þar er búið að koma fyrir undirslætti undir brúardekkið, sem umferðin fer undir. Undirslátturinn er borinn uppi af stálbitum sem sitja á hlöðnum steyptum einingum. Á meðan bygging brúarinnar stendur yfir minnkar hæð undir brúna, sem þessum undirslætti nemur. Engu að síður er hæð undir undirsláttinn meiri en hámarks framhæð, sem samkvæmt reglugerð er 4,2 metrar. (Reglugerð um stærð og þyngd ökutækja nr. 155/2007 9. gr Hæð ökutækis „Leyfileg hæð ökutækis er 4,2 m“). Hæðaslárnar eru í 4,3 metra hæð
Ítrekuð brot á hæðartakmörkunum
Þrátt fyrir ráðstafanir hefur ítrekað verið ekið á hæðarlárnar, jafnvel án þess að ökumenn veiti því sérstaka athygli, og haldið áfram undir brúarbygginguna. Ef farmur er það hár að hann rekist í sjálfan undirslátt brúarinnar er hrunhætta vegna byggingabúnaðarins, en þar eru meðal annars margir tugir stálbita sem hver um sig er um 2 tonn að þyngd.
Falli þeir niður ásamt öðrum byggingabúnaði á ökutæki þar undir úr um 5 metra hæð er hætta á stórslysi. Það á einnig við um þá starfsmenn sem vinna við brúarsmíðina.