Umhverf­ismats­skýrsla til kynn­ingar

Lestími: < 1 mín

Kynningarfundur á umhverfismatsskýrslu vegna gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, ásamt hluta af 3. lotu Borgarlínu milli Vogabyggðar og Stekkjarbakka, fór fram síðastliðinn mánudag að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á fundinum fóru Anna Rut Arnardóttir og Berglind Hallgrímsdóttir, sérfræðingar hjá EFLU, yfir helstu niðurstöður umhverfismatsins. Umhverfismatsskýrslan er nú til kynningar hjá Skipulagsstofnun og frestur til athugasemda er til 16. september 2025 á skipulagsgátt.is

Aðalvalkostur framkvæmdaaðila  

Nokkrir valkostir varðandi útfærslu gatnamótanna voru til skoðunar. Í umhverfismatsskýrslunni kemur fram að aðalvalkostur framkvæmdaraðila felst í að hliðra Reykjanesbraut til vesturs, afnema ljósastýringu á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, setja vinstri beygju inn á Bústaðaveg á brú og koma leið Borgarlínu fyrir í sérými í austurkanti Reykjanesbrautar. Þessi lausn hefur lágmarksáhrif á verndarsvæði í Elliðaárdal. Nánari upplýsingar er að finna í umhverfismatsskýrslunni, sjá hér

Um hvað fjallar umhverfismatsskýrslan? 

Í umhverfismatsskýrslunni er fjallað um áhrif á loftslag, fornminjar, fugla, jarðmyndanir, hljóðvist, loftgæði, landslag og sjónræna þætti, náttúruminjar, samgöngur og umferðaröryggi, útivist, vatnafar, vatnalíf og vatnshlot.  Einnig er farið yfir hvaða valkostir hafa verið til skoðunar og fjallað um aðalvalkost framkvæmdaaðila.  

Markmiðið með framkvæmdum 

Markmið framkvæmdar er að bæta flæði bílaumferðar á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, útfæra leið Borgarlínu á leggnum milli Vogabyggðar og Mjóddar, ásamt aðliggjandi göngu- og hjólastígum. Efla samgöngur fyrir alla ferðamáta, minnka umferðartafir á háannatíma og auka umferðaröryggi vegfarenda.  

Verkefnið er hluti af Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er unnið í samstarfi Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.  

Deila grein: