Viðgerðir og vegaframkvæmdir víða um land – gætum að öryggi og sýnum tillitssemi

Lestími: 2 mín

Núna er háannatími sumars og margir á faraldsfæti um allt land. Víða er unnið við viðhald vegakerfisins, viðgerðir og aðrar vegaframkvæmdir. Það er gott að hafa þetta í huga og kynna sér stöðuna á vefsíðunni Umferdin.is sem Vegagerðin heldur úti.

Fram kemur hjá Vegagerðinni að búast megi  við steinkasti og töfum víða vegna vinnu og framkvæmda. Hraði er tekinn niður á flestum vinnusvæðum og passa þarf upp á að hafa gott bil á milli bíla til að draga úr líkum á skemmdum vegna steinkasts.

Íslensku aðferðinni við yfirlögn á slitlagi, þar sem umferð vegfarenda er notuð til að þjappa yfirborð vegar, fylgir tilheyrandi lausamöl með hættulegu steinkasti. Við þessar aðstæður er sérstaklega mikilvægt að ökumenn sýni verulega aðgát og virða merkingar um hámarkshraða.

Enn og aftur er ítrekað að þar sem starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar eru að störfum við vegi þar þarf að sýna sérstaka varkárni og draga hressilega úr hraða þegar ekið er hjá viðgerðarsvæðum.

Góða skapið

Í sumarfríinu er mikilvægt að halda í góða skapið og sýna öðrum tillitssemi. Í mikilli umferð og við akstur um framkvæmdasvæði tekur ferðalagið lengri tíma en venjulega. Það skiptir ekki máli í fríinu hvort komið er á áfangastað innan þröngra tímamarka.

Ef börn eru í bíl þarf að nota viðurkenndan öryggisbúnað barna sem hentar hæð og þyngd þeirra. Það þarf að vera með fulla athygli við aksturinn, gæta varúðar við framúrakstur og haga akstri þannig að auðlvelt sé fyrir aðra vegfarendur að fara fram úr okkur.

Steinn í framrúðu

Að fá stein í framrúðu er þekkt vandamál. Hærri tíðni steinkasts hér á landi tengist m.a. malarvegum og framkvæmdasvæðum þar sem verið er að leggja nýtt slitlag (s.br. hér framar). Flestir eru með rúðutryggingu en bera háa eigináhættu. Gott er að hafa í bílnum svokallaða bílrúðumiða sem hægt er að nálgast hjá tryggingafélögum. Ef skemmdin er lítil og ekki í sjónlínu ökumanns eru líkur á að hægt sé að gera við rúðuna og draga þar með úr kostnaði og auka öryggi á ferðalaginu.

Deila grein: