Gæta þarf sérstaklega vel að þyngd rafbíla áður en lagt er af stað í ferðalagið.
Að pakka farangri rétt í bíl eykur öryggi og þægindi. Gæta verður að því að hlaða ekki um of í bílinn. Mörg ökutæki ná hámarki skráðrar heildarþyngdar í skráningarskírteini löngu áður en skottið er fullt.
Margir rafbílar eru með minni burðargetur en bílar með brunahreyfli. Þetta kemur m.a. til af því að eigin þyngd rafbíla er mun hærri en sambærilegra brunahreyfilsbíla. Það er ekki sjálfgefið þó að það sé pláss í skottinu að hægt sé að troða í það viðbótar dóti. Við ofhleðslu geta aksturseiginleikar bílsins versnað til muna og haft verulega neikvæð áhrif á hemla og stýri.
Einnig er gott að hafa í huga að eftirvagnar geta lagt umtalsverða þyngd á bílinn. Flestir dráttarkrókar á fólksbílum eru yfirleitt ekki gefnir upp fyrir meira en 70-100 kg. Því skiptir miklu máli að raða þyngdinni jafnt í vagninn.
Það er ekki gaman að þurfa að velja hvort skilja eigi farangur eða farþega eftir ef bíll er ofhlaðinn og heildarþyngt yfir skráðum heimildum.
NAF systurfélag FÍB í Noregi gefur þessi ráð varðandi hleðslu bíla: Setja á stóra og þunga hluti eins langt niður og framarlega í skottið og mögulegt er og fylla síðan í kring með léttari hlutum. Að festa farminn með ólum eða farangursneti dregur úr líkum á að farangurinn færist til og það eykur öryggi.
Þar sem uppgefin hleðsluþyngd flestra rafbíla er minni en þyngd bensín- og dísilbíla þarf að huga vel að hleðslu og þyngd. Það getur falist ákveðinn ómöguleiki í því að ná að hlaða bílinn með öllu útilegudótinu og kjarnafjölskyldunni áður en lagt er af stað í ferðalagið.
NAF bendir sérstaklega á mikilvægi þess að halda sig innan uppgefnar heildarþyngdar. Hversu mikið má hlaða í bílinn kemur fram í skráningarskírteini ökutækisins. Ef farið er yfir þau viðmið getur það dregið úr aksturseiginleikum og lengt hemlunarvegalengd. Í Noregi er strangt eftirlit með heildarþyngd fólksbíla og ökumenn eru reglulega stöðvaðir og bílar þeirra viktaðir. Það er ekki gaman að þurfa að velja hvort skilja eigi farangur eða farþega eftir ef bíll er ofhlaðinn og heildarþyngt yfir skráðum heimildum.
Skýrar prófanir
NAF hefur framkvæmt prófanir á á ofhlöðnum bílum á æfingabrautum og niðurstöðurnar eru skýrar.
– Ef bíll er ofhlaðinn er hætta á að bíllinn láti illa af stjórn við hættulegar aðstæður. Jafnvel saklausir litlir farsímar eða spjaldtölvur sem eru laus í bíl geta valdið verulegri hættu ef hemla þarf skyndilega eða bíll lendir í árekstri:
Við akstur á 50 kílómetra hraða á klukkustund mun dæmigerð spjaldtölva lenda með 24 kílóa krafti á þeim eða því sem hún lendir á og við 100 kílómetra hraða á klukkustund mun krafturinn samsvara hlut sem vegur 96 kíló.
Fjórir sementspokar
– Þetta eru tölur sem erfitt er að meðtaka. Fáir hugsa um spjaldtölvu sem hættulega. En við skyndistöðvun á 100 kílómetra hraða á klukkustund mun krafturinn jafngilda fjórum sementspokum. Verið varkár með lausa hluti í bílnum. Notið spjaldtölvu-, og snjallsímahaldara og gætið þess að litlir, að því er virðist skaðlausir hlutir séu í lokuðu hólfi á meðan ekið er.
Í meðfylgjandi grein “Rafbílaeigendur berjast við aukakílóin” sem birtist á vef FÍB fyrir þremur árum má finna samanburð á burðargetur nokkurra rafbíla ásamt öðru tengdu efni.
Á skrifstofu FÍB og í vefverslun FÍB er hægt að kaupa ýmsar öryggisvörur s.s. snjallsímahaldara, framlengingarspegla og kerrunet. Sjá nánar hér.