Lyklalaus bílþjófnaður eða innbrot í bíl – Hætta og forvarnir

Lestími: 2 mín

Bílaþjófnaður án lykils er ört vaxandi vandamál víða um heim og hér heima hefur þessi tækni helst verið notuð við innbrot í bíla. Þjófar nýta sér rafræna tækni til að stela bílum án þess að þurfa bíllykil. Í Bretlandi hafa þjófar verið sérlega iðnir við að stela bílum sem hafa lyklalaust aðgengi og ræsingu.

Hvað er lyklalaus bílaþjófnaður?

Þjófar nota sérstakan tæknibúnað til að fanga og magna upp merki frá bíllykli sem t.d. er í anddyrinu á heimili umráðaaðila bíls. Tækið sendir merkið áfram í viðkomandi bíl og þá geta þjófarnir opnað og ræst bílinn. Allt þetta er hægt að framkvæma á innan við mínútu, án hávaða eða mikils umstangs.

Hvernig fer þjófnaðurinn fram?

Óprúttnir aðilar geta nálgast sérhæfðan tæknibúnað sem er sendi- og mögnunartæki á svörtum markaði og jafnvel bara á netinu. Næst er að kanna hvar verðmæta bíla er að finna t.d. við heimili.  Síðan er farið á staðinn þar sem ökutækið sem þjófarnir ásælast er að finna, utan háannatíma. Einn þjófur fer að húsinu með mögnunartæki til að freista þess fanga merki og bylgjur frá bíllykli. Merkið er magnað og sent til tækis við bílinn og tölvubúnaður bílsins nemur merkið eins og þegar bíllykillinn er nálægur. Þjófarnir opna bílinn, ræsa hann og aka af stað.

Er auðveldara að stela bíl með lyklalausu kerfi?

Já, sérstaklega ef bæði er hægt að notast við lyklalausa opnun og ræsingu. Bíll með þessum búnaði er viðkvæmari gagnvart þessari óprúttnu aðferð heldur en bíll með hefðbundnu lykla aðgengi eða lykla ræsingu.

Hvað eru bílaframleiðendur að gera?

Nýrri bílar eru oft með betrumbætt öryggiskerfi. Sum lyklakerfi slökkva sjálfkrafa á útsendingu merkis þegar búnaðurinn er ekki í notkun. Sum kerfi bjóða upp á þann möguleika að slökkva alveg á lyklalausri virkni í hugbúnaðarstillingu bílsins og eða í appinu sem fylgir með bílnum.

Hvernig geturðu varið þig?

Lokaðu bílnum og geymdu lykilinn í öruggri fjarlægð frá hurðum og gluggum. Æskilegt er að notast við þar til gerð geymslubox sem einangra rafeindabylgjur. Slökkva á lyklalausri virkni ef það er í boði. Uppfæra hugbúnað bílsins reglulega. Leggja bílnum á vel upplýstum og sýnilegum stað. Það getur einnig hjálpað að hafa GSM rekjara í bílnum það auðveldar að finna bíllinn hafi hann verið tekinn án leyfis.

Deila grein: