Góð og regluleg ryðvörn er einn af mikilvægustu þáttum í endingu bíla. Í söluskoðun á notuðum bílum kemur oft í ljós að reglulegri ryðvörn hefur ekki verið viðhaldið. Þá finnst stundum ryð í undirvagni sem kemur niður á endursöluverðmæti bílsins. Ryðvörn skilar sér síðar meir í rekstrinum og ekki síst þegar bíllinn er seldur. Oft er sagt að fyrsta ryðvörnin sé sú mikilvægasta en hún innsiglar og ver þá staði í bílnum sem ekki voru ryðvarðir af hendi verksmiðjunnar. Bílar eru vissulega misjafnlega ryðsæknir en jafnframt kemur einnig til notkun bílsins og hvernig og hvar honum er ekið. Af þessum þáttum beri að hafa hliðsjón þegar hugað er að endurryðvörn bílsins. Góð ryðvörn í upphafi lengir líf bæði yfirbyggingar og undirvagns, hemlaröra og slíks. Eðlileg endurnýjun hennar skilar því betri og öruggari bíl, lægri viðhaldskostnaði og hærra endursöluverði.
Tæring eða ryð algeng athugasemd við söluskoðun
Ein algengasta athugasemdir við söluskoðun á notuðum bílum er tæring eða ryð í undirvagni. Þetta dregur mjög úr endursöluverði bílsins enda er fagmannleg og regluleg ryðvörn mikilvæg fyrir endingu hans. Á Íslandi er selta og sérstakar aðstæður á götum yfir vetrartímann sem verja þarf bílinn fyrir og engar tvær bílategundir eru eins.
Jón Ragnarsson stofnaði Bílahöllina – Bílaryðvörn ehf árið 1970 og starfar í fyrirtækinu ásamt sonum sínum tveimur, Baldri og Rúnari. Bílaryðvörnin er rekin á sama stað og bílasalan Bílahöllin, að Bíldshöfða 5. Samhliða ryðvörninni er boðið upp á heithúðun fyrir pallbíla, hestakerrur og á slitfleti sem mæðir mikið á. Bílaryðvörn notar hágæða ryðvarnarefnið Dintrol en til að verja undirvagn þarf þrjár til fjórar gerðir af efnum eftir því hvar borið er á. Í lokuð hólf fer til t.d. fituvaxefni sem er alltaf lifandi og mjúkt. Það þýðir hins vegar lítið að setja slíkt efni undir botninn þar sem mesta álagið er því að það skolast og fljótt í burtu. Slitsterk efni eru notuð á botninn og eru þau jafnframt hönnuð til að veita hljóðeinangrun.
Bílar sem ekki fara í ryðvörn fara mun fyrr en þeir sem fara reglulega í þessa meðferð

„Það er margbúið að sanna sig að ryðvörn er mikilvægur þáttur í umhirðu og rekstri bílsins á allan hátt. Bílar sem ekki fara í ryðvörn munu ryðga fyrr en hinir. Það eru nokkur umboð sem láta ryðverja alla bíla og láta ekki verksmiðju ryðvörnina duga. Ég er með gott dæmi um 21 árs gamlan bíl, sem ég á sjálfur, og hef látið ryðverja fimm sinnum er alveg eins og nýr,“ segir Jón Ragnarsson í spjalli við FÍB–blaðið.
Aðspurður hvort bíleigendur séu almennt meðvitaðir um mikilvægi ryðvarnar segir Jón að svo sé. Aðstæður hér á landi eru oft erfiðar, salt er á götum og hitastig er breytilegt. Jón leggur áherslu á að góð ryðvörn skilar sér margfalt þegar upp er staðið.
„Það skiptir máli að nota góð efni en við notum sænskt úrvalsefni frá Dintrol sem hefur sýnt sig og sannað í gegnum tíðina. Menn verða að hafa í huga að það er ekki bara nóg að ryðverja í upphafi. Það er mjög gott að taka undirvagna á 3-4 ára fresti, hurðar, dyrastafi og annað innvols á 6-8 ára fresti. Ef þessu eru fylgt eftir er bíllinn í góðum málum, hann endist mun betur en ella,“ segir Jón.

Grindur sem ekki eru ryðvarðar fara illa
„Að mínu mati eru bíleigendur ekki að huga að ryðvörn með sama hætti og fyrir einhverjum árum síðan. Sumar verksmiðjur eru að gefa út að bíllinn sé með ryðvörn frá þeim en hún dugar skammt. Ryðvörnin frá verksmiðjunum er langt í frá eins og góð og þegar ég var að byrja í þessum bransa fyrir yfir 50 árum. Reynslan hefur sýnt okkur að bílar sem hafa verið ryðvarnir hjá okkur fáum við aldrei til baka í einhverjum vandamálum. Jeppar, grindur sérstaklega, sem ekki hafa verið ryðvarðir, hafa farið illa á 5–7 árum. Bílar sem ætlast er til að endist í 10–15 ár gera það ekki án ryðvarnar. Það er alveg ljóst,“ segir Jón.
Jón segir gríðarlega mikið að gera þótt einhver umboðanna láti ekki ryðverja. Það er biðlisti í endurryðvörn en reynt sé að taka alla nýja bíla strax inn.
Aka um á dýrum bílum og spara sér ryðvörnina er ekki skynsamlegt
„Það skilar sér tvímælalaust í endursölu á bílnum að huga vel að ryðvörninni, ekki síður en að bóna og þrífa vel reglulega. Að aka um á dýrum bílum og spara sér síðan ryðvörnina er ekki skynsamlegt að mínu mati. Margir sérfræðingur eru sammála um að verksmiðjuryðvörnin ein og sér dugi ekki.“
Greinin var fyrst birt í 2.tbl. 2021 FÍB Blaðið.
