Bitnar á heimilum og fyrirtækjum
Alþingi er að fara yfir frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2026. Meðal ákvæða í frumvarpinu eru veigamiklar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993. Í tveim fréttum hér framar hafa FÍB FRÉTTIR fjallað um ýmsar hliðar þessara breytinga sem einkum varða almenning og heimilin í landinu. Hér á eftir er farið yfir möguleg áhrif lagabreytinga á verðbólgu, framsett markmið stjórnvalda og áhrif skattabreytinga á markaðinn.
Varúð vegna verðbólguáhrifa
Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að frumvarpið hafi ekki mikil áhrif á verðbólgu en Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í viðtali í Þjóðmálum, sem fjallað var um í Viðskiptablaðinu, að hækkun vörugjalda á bifreiðar um komandi áramót gæti fellt núgildandi kjarasamninga þar sem þau geti viðhaldið hárri verðbólgu.
„Þegar frumvarpið var lagt fram voru menn að gera ráð fyrir því að áhrifin af hækkun vörugjalda yrðu um 0,1% á verðbólguna. Okkar gögn, sem tekin eru saman af hagfræðingum, sýna að þetta sé algjört vanmat,“ sagði Sigríður Margrét.

„Okkar greiningar sýna að þetta gæti verið tvöfalt til þrefalt meiri áhrif. Það þýðir að við erum þá, miðað við verðbólguna eins og hún er núna, komin ansi nálægt þessu verðbólguviðmiði sem er í kjarasamningum. Spurningin sem gæti þá vaknað er, mun vörugjöldin á bifreiðar fella kjarasamningana? Það eru atriði sem við þurfum að horfa vel til.“
Standast markmið breytinganna?
Markmiðið með breytingum á álagningu vörugjalda á ökutæki eru sagt eftirfarandi:
1. Orkuskipti í samgöngum með notkun á íslenskri orku.
2. Einföldun, fækkun undanþága og loka fyrir glufur í skattkerfinu.
3. Að draga úr lækkun tekna af ökutækjum og eldsneyti.
4. Að hafa lágmarksáhrif á heimili og fjölskyldur.
FÍB fagnar og mælir með tillögum um að færa ökutæki knúin rafmagni, vetni og metani úr 5% vörugjaldi í 0% enda er það til að styrkja orkuskipti og nýtingu innlendrar orku sem er endurnýjanleg og umhverfisvæn.
Liður tvö um einföldun og fækkun undanþága kemur illa niður á þeim sem hafa ekki sömu aðstöðu varðandi orkuskipti t.d. á landsbyggðinni. Margir geta nýtt sér tengiltvinnbíla og náð að taka þátt í orkuskiptum en tengiltvinnbílar munu hækka hlutfallslega mest í verði ef frumvarp stjórnvalda um breytingu á vörgjöldum ökutækja nær fram að ganga. Svo eru það neikvæðu áhrifin á akstursíþróttir og áhugafólk um fornbíla og samgöngusögu.
Þriðji liðurinn stenst að hluta en gengur allt of langt. Fyrstu áhrifin verða tekjusamdráttur vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem mikil hækkun gjalda hefur á kauphegðun almennings og rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Þetta síðastnefnda stenst ekki skoðun. Um er að ræða róttækar breytingar á skattlagningu bifreiða og margir bílar þ. á m. notaðir bílar munu hækka í verði og margir hressilega. Samhliða er gert ráð fyrir auknum skatttekjum ríkissjóðs með breytingu á kílómetragjaldi og hækkun kolefnisgjalds. Á móti eiga bensín- og dísilskattar að lækka en óvíst að það skili sér að fullu við eldsneytisdæluna. Í nýrri samgönguáætlun sem taka á til þinglegrar meðferðar á næstunni er gert ráð fyrir stórauknum sköttum á bíleigendur m.a. með álagningu veggjalda. Hækkun skatta vegna eignar og reksturs ökutækja á að skila ríkissjóði um 11 milljörðum króna í auknar tekjur strax 2026.
Mikil áhrif á markaðinn
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2026 er lagt út frá að tekjur ríkisins af vörugjaldi ökutækja aukist um 7,5 milljarða króna miðað við áætlaðar tekjur í ár. Vegna stóraukins innflutnings á bílum til landsins síðustu vikur, sem eru bein viðbrögð markaðarins við fyrirhuguðum vörugjaldsbreytingum 2026, munu vörugjaldstekjur af innfluttum ökutækjum stóraukast umfram áætlanir ársins. Þessi innflutningsaukning mun að óbreyttu draga verulega úr tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum ökutækja á næsta ári.

Yfirvofandi skattahækkun sem auglýst hefur verið hressilega síðustu vikur er að hafa víðtæk áhrif á markaðinn með neikvæðum hætti. Eðlilegt rekstrarumhverfi fyrirtækja í bílgreininni mun að óbreyttu verða fyrir mjög miklum skakkaföllum á næsta ári. Ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir samdrætti með tilheyrandi fækkun starfa í greininni.
Stjórnvöld hafa ekki rannsakað með fullnægjandi hætti þjóðhagslegar afleiðingar þessara breytinga á rekstur heimila og verðbólgu. Hvað með starfsemi fyrirtækja í bílgreininni og fyrirtækja sem byggja afkomu sína á rekstri ökutækja og samgöngum á landi? Hvað með landsbyggðina?







