Í nýlegri greinargerð Samtaka fyrirtækja á fjármálaþjónustu (SFF) hefur nú verið viðurkennt að ekkert var hæft í fullyrðingum hagfræðings samtakanna um hátt samkeppnisstig á vátryggingamarkaði. Hann hélt þessu fram í viðtali við Morgunblaðið 14. maí síðastliðinn.
Eftir ábendingar frá FÍB um að SFF væri með þessum og ýmsum öðrum fullyrðingum að beita sér gegn samkeppni tryggingafélaga sendi Samkeppniseftirlitið athugasemdir til SFF og óskaði skýringa. Þær bárust 2. október og voru áframsendar til FÍB þann 14. nóvember.
Í viðtalinu við Morgunblaðið sagði hagfræðingur SFF að meint léleg afkoma af vátryggingastarfsemi væri vísbending um hátt samkeppnisstig á innlendum vátryggingamarkaði vegna hreyfanleika neytenda sem hafi mælst umtalsvert meiri en í öllum löndum Evrópusambandsins. Þessi fullyrðing var ekki nánar rökstudd en tekin trúanleg.
Ekkert um tryggingar í meintri mælingu
Í greinargerð SFF til Samkeppniseftirlitsins segir að horft hafi verið til könnunar Gallup um hreyfanleika á fjármálamarkaði fyrir SFF sem birt var 30. apríl 2024. Meinið er bara að í þeirri könnun var enga spurningu að finna um hreyfanleika á vátryggingamarkaði. Aðeins var spurt um hlutfall þeirra sem skipt hafa um þjónustuaðila fyrir sparnaðarreikning, greiðslukort og húsnæðislán. Það segir ekkert um hreyfanleika tryggingataka. Fullyrðingin um að mæling sýndi hátt samkeppnisstig á vátryggingamarkaði var því með öllu ósönn.
Þetta var ekki eina atriðið í viðtalinu við hagfræðing SFF sem FÍB taldi ámælisvert. FÍB sagði að fullyrðingar um tap í vátryggingastarfsemi sem byggðu á löngu úreltum tölum hefðu brotið gegn banni við opinberu fyrirsvari SFF um atriði sem snúa að viðskiptakjörum og verðlagningu. Enginn vafi lék á því að skilaboðin til tryggingafélaganna voru að þau gætu varist óskum tryggingataka um lægri iðgjöld með því að bera fyrir sig hinn villandi fréttaflutning um laka afkomu og mikla samkeppni. Tryggingatakar fengu sömu röngu skilaboð, að vegna hins meinta bága ástands gætu þeir ekki vænst betri kjara.
Málið er nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.






