Mynd: Adobe Stock

Óheimilt að senda „ósýnilegar bílastæðainnheimtur“

Lestími: 3 mín

Danska samgönguráðuneytið úrskurðar gegn innheimtuaðgerðum bílastæðafyrirtækja. Hvað gerist á Íslandi?

Nýlega fjölluðu FÍB Fréttir um ágreining danska samgönguráðherrans við bílastæðafyrirtæki um rafræna innheimtu bílastæðasekta í Danmörku. FDM systurfélag FÍB í Danmörku hefur lengi barist gegn því að innheimtukröfur vegna bílastæðaafnota, á bílastæðum með stafrænu myndavéla eftirliti, fari sjálfkrafa í rafræna innheimtu. Nú hefur samgönguráðuneytið danska gefið út leiðbeinandi tilmæli um það hvernig skuli standa að slíkum innheimtum.

Frá og með 1. júlí 2025 verður óheimilt að senda svokallaðar „ósýnilegar bílastæðainnheimtur“.

Þessar innheimtuaðferðir hafa sætt mikilli gagnrýni í Danmörku og þá sérstaklega frá ökumönnum sem fá innheimtukröfur löngu eftir að hafa lagt í bílastæði eða vegna bílastæðanotkunar annarra aðila.

Fram að þessu hefur verið heimilt að senda innheimtukröfur eftir á ef hægt er að sína fram á að ekki var mögulegt fyrir bílastæðavörð að hengja innheimtuseðil á bíl. Mörg bílastæðafyrirtæki hafa túlkað þetta þannig að þeim sé heimilt til að senda allar sektir rafrænt á eiganda ökutækis og sleppa þar með við að hafa bílastæðaverði á vettvangi.

Ráðherra sker úr um málið

Danski samgönguráðherrann, Thomas Danielsen, hefur nú staðfest að frá 1. júlí 2025 verða  aðeins þær bílatæðainnheimtur lögmætar sem búið er að festa á bíl eða afhenta ökumanni af stöðuverði. Þetta er ekki ný túlkun heldur útskýring á gildandi reglum segir samgönguráðuneytið.

Félag danskra bíleigenda (FDM) fagnar þessari ákvörðun ráðherra og leggur áherslu á að þetta tryggi rétt ökumanna til að verja réttindi sín t.d. með því að taka myndir af skiltum eða öðrum aðstæðum á vettvangi. Neytandi getur illa varið réttindi sín ef sekt berst eftir að ekið var af vettvangi.

Krafa í stað sektar

Bílastæðafyrirtæki mega áfram nota myndavélaeftirlit (bílnúmeragreiningu) til að innheimta greiðslu fyrir bílastæðaafnot, en það má ekki nota þá aðferð við innheimtu sekta.

Réttarstaða danskra neytenda mun betri en á Íslandi

Bílastæðafyrirtækjum er heimilt að senda greiðslukröfu á þann sem lagði ákveðnum bíl í gjaldstæði en ekki á eiganda ökutækisins. Ef krafan er ekki greidd á réttum tíma, má senda innheimtuáskorun með 100 DKK álagi (um 1.920 krónur) rétt eins og í öðrum tilvikum þar sem neytandi skuldar fyrirtæki peninga.

Þarna er réttarstaða danskra neytenda mun betri en á Íslandi þar sem bílastæðafyrirtæki og opinberir aðilar eru að innheimta allt að 7.500 krónur í vangreiðslugjald en algengasta vangreiðslugjaldið er 4.500 krónur líkt og m.a. Bílastæðasjóður Reykjavíkur innheimtir. Þetta háa aukastöðugjald var sett á með auglýsingu um gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavíkurborg frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í október 2020 og undirritað af þáverandi ráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni.

Hvað er að gerast á Íslandi?

FÍB hefur á liðnum misserum ítrekað komið því á framfæri við íslensk stjórnvöld að hér séu viðskiptahættir fyrirtækja sem sinna bílastæðaþjónustu á gjaldskyldum bílastæðum um margt á mjög gráu ef ekki svörtu svæði.

Nýlega lagði Neytendastofa stjórnvaldssektir á nokkur fyrirtæki sem sinna bílastæðarekstri þar sem brotið hafði verið gegn lögum um góða viðskiptahætti sem og reglum um verðmerkingar o.fl. Þessi niðurstaða kom út 15 mánuðum eftir að FÍB óskaði eftir aðgerðum af hálfu Neytendastofu vegna ófremdarástands og græðgisvæðingar við gjaldtöku á bílastæðum.

Núverandi ástand er aðför gegn neytendum, ferðaþjónustunni, almannarétti og útivist.

Fulltrúar FÍB hafa komið ábendingum vegna þessa ófremdarástands persónulega á framfæri við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra og einnig við Sigurð Inga Jóhannesson þegar hann var innviðaráðherra í síðustu ríkisstjórn. Það ríkir algert andvaraleysi hjá stjórnvöldum gagnvart þeirri óbeisluðu græðgisvæðingu sem grafið hefur um sig á íslenskum bílastæðamarkaði. Núverandi ástand er aðför gegn neytendum, ferðaþjónustunni, almannarétti og útivist. Það er sjálfsögð krafa að settar séu leikreglur sem verja almenning gagnvart okri og óréttmætum viðskiptaháttum. Er ekki tími til að láta verkin tala líkt og við sjáum í aðgerðum danska samgönguráðherrans?

Nánari upplýsingar á fréttasíðu FDM.

Deila grein: