Tryggingafélögin halda áfram að hagnast á bíleigendum

Lestími: < 1 mín

Bíleigendur hafa gefið vel af sér fyrir tryggingafélögin á þessu ári, líkt og 2023 og 2024. Hlutfallið milli iðgjalda og kostnaðar hefur sjaldan verið jafn hagstætt fyrir tryggingafélögin. Fyrstu 9 mánuði þessa árs var þetta hlutfall undir 90% í skyldutryggingum, sem sýnir að vátryggingareksturinn standi vel undir sér.

Til viðbótar hafa tryggingafélögin fjárfestingatekjur og í þeim efnum er bótasjóður ökutækjatrygginga mikil mjólkurkýr. Bara á þessu ári hafa tryggingafélögin bætt 6,2 milljörðum króna í bótasjóðinn og stóð hann í 81,3 milljörðum króna í lok september samkvæmt gagnatöflum vátrygginga í Seðlabankanum.

Ofteknum iðgjöldum safnað í bótasjóðinn

Tryggingafélögin safna í bótasjóðinn með ofteknum iðgjöldum af bíleigendum. Sjóðurinn er sagður eiga að standa undir miklum áföllum og tryggja að hægt sé að flytja skuldbindingar á milli tryggingafélaga.

Sjóðurinn gerir samt ekki annað en vaxa og vaxa, óháð þörf. Árið 2016 nam sjóðurinn 54 milljörðum króna framreiknað til verðlags á þessu ári og hefur því hækkað um 27 milljarða króna á 10 árum.

Engin merki um samkeppni

Engin merki eru um að samkeppni milli tryggingafélaga um viðskiptavini sé að stuðla að lægri iðgjöldum. Þvert á móti. Vísitala bílatrygginga hefur tekið hratt fram úr vísitölu neysluverðs undanfarin fjögur ár.

Deila grein: