Toyota að kynna tvo mjög áhugaverða hugmyndabíla

Lestími: < 1 mín

Það er mikið að gerast hjá Toyota um þessar mundir. Þeir virðast ekki einungis vera að hanna bíla heldur einnig vélrænan bíl fyrir börn og sérstakan bíl hannaðan fyrir Afríku. Þessir hugmyndabílar voru kynntir á Tokyo Mobility ráðstefnunni í Japan sem var núna á dögunum. 

Sjálfkeyrandi með gervigreind

Kids Mobi er lítill vélrænn bíll sem er hannaður fyrir börn. Margir eflaust velta því fyrir sér hvernig börn geta keyrt bíl en hönnuðurnir eru búnir að hugsa þetta í gegn. Í framtíðinni verða bílar sennilega orðnir sjálfkeyrandi með gervigreind, þá þurfa börn ekki ökuréttindi. Það þarf eflaust eitthvað að endurskoða þetta lagalega, en það er seinni tíma vandamál. Samt sem áður er þetta áhugaverð hugmynd, hver væri ekki til í að sjá barnið sitt keyrandi um á litlum krúttlegum bíl sem getur blikkað?

Það kom einnig fram skemmtilegur hugmyndabíll sem kallast IMV Origin, sem er mjög framtíðarlegt nafn. Hann kemur víst 70 prósent kláraður en það passa sex svona stykki í flutningagám. Þegar hann kemur á staðinn þá er bætt við ökumannsrými, stýri o.s.frv. Þegar kaupandi fær bílinn þá er þetta hálfgert “gerðu það sjálfur” verkefni að setja hann saman. Þetta er í raun lítill trukkur með aðeins einu rými fyrir ökumann.  

Notagildi bílsins getur verið alls konar

Samkvæmt Toyota getur notagildið verið mismunandi og fer það eftir kaupandanum hvernig hann vill setja upp bifreiðina. Notagildi bílsins getur verið alls konar sem dæmi má nefna ruslabíll, sendingarbíll, ísbíll, pallbíll o.s.frv. Toyota segir að bíllinn er hannaður fyrir ákveðin svæði í Afríku, þar sem er ekki malbyggað og fólk hefur ekki efni á faratækjum.

Deila grein: