Fjórðungur ökumanna óánægður með öryggiskerfi bíla – traustið minnkar

Lestími: 2 mín

Nýleg könnun innan Evrópu sýnir að margir ökumenn skilja ekki hvernig svokölluð háþróuð ökumannaaðstoðarkerfi (ADAS) virka og hvernig er hægt að nýta þau. Þetta hefur skapað ákveðið vantraust hjá sumum bíleigendum gagnvart nýjum og tæknivæddari bílum.

Tæknifyrirtækið DG Cities sem vann könnunina segir að bílaframleiðendur og bílasalar verði að útskýra betur fyrir neytendum hvernig búnaðurinn virki. Um 40 prósent svarenda í könnuninni sögðust hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar um möguleika búnaðarins við kaup. Breska bílablaðið Autocar fjallaði um málið í júní.

ADAS-kerfi eins og blindpunktsviðvörun og akreinavari eru skyldubúnaður í nýjum bílum samkvæmt nýjum öryggisreglum ESB (GSR2). Markmiðið er að fækka dauðaslysum á vegum um helming innan Evrópu. Nánari upplýsingar um ADAS má sjá í myndbandi neðst í frétt.

Lara Suraci, atferlissérfræðingur hjá DG Cities, segir fjórðung ökumanna óánægða með ADAS-kerfi bíla sinna og að 10 prósent vantreysti nákvæmni þeirra.

Ósamræmi milli bílaframleiðenda

Mismunandi útfærslur og viðmót kerfanna rugla viðskiptavini, að sögn Balázs Csuvár, nýsköpunarstjóra hjá DG Cities. „Þetta er ekki sölupunktur sem framleiðendur leggja áherslu á, og því ber enginn raunverulega ábyrgð á að uppfræða kaupendur um virknina eða bæta kerfin,“ segir hann.

Thatcham Research er sjálfstæð rannsóknarstofnun með sérstaka áherslu á að skilja tækifæri og áhættur sem fylgja nýrri tækni í ökutækjum. Yousif Al-Ani verkfræðingur og aðal sérfræðingur Thatcham í ADAS búnaði er sammála því að ósamræmi á milli kerfa og mismunandi áreiðanleiki og nákvæmni sé áhyggjuefni. Hann segir að ódýrari bílar á markaðnum séu oft búnir eldri og ófullkomnari tækni. „Þrátt fyrir þessi vandamál tel ég að ADAS sé að batna með hverri nýrri gerð.“

Umboðsmaður bílgreina í Bretlandi hefur beint þeim tilmælum til breskra  bílasala þeir verði að uppfræða neytendur betur við afhendingu bíla um virkni og takmarkanir ADAS búnaðarins. Skýrar leiðbeiningar við afhendingu eru nauðsynlegar og söluaðilar eiga að miðla grunnleiðbeiningum eða vísa á upplýsingar. Þetta hjálpar neytendum að kynna sér búnaðinn áður en ekið er af stað á nýja bílnum eða nýja notaða bílnum.

Bílasalar missáttir

Margir í bílasölu telja það varhugavert að þeir beri meiri ábyrgð á uppfræðslu til neytenda um virkni og notkun ADAS. Eigandi enskrar bílasölu sagði í Autocar að það sé ekki hlutverk bílasala að þjálfa viðskiptavini né raunhæft að reyna það við afhendingu á bíl eftir kaup. „Ef eitthvað fer úrskeiðis, þá gætum við verið taldir ábyrgir,“ sagði bílasalinn.

Leynileg könnun

Í kjölfar könnunar DG Cities heimsótti blaðamaður Autocar fjóra söluaðila fyrir nýja bíla og eina bílasölu með notaða bíla og þóttist vera áhugasamur kaupandi.  

Í heildina var reynsla hans jákvæð. Hjá VW var réttilega bent á að kerfin aðstoði ökumann við akstur, en taki ekki við stjórn bílsins. Hjá Ford umboðinu var honum sagt að Mustang Mach-E með BlueCruise búnaði væri með takmarkaðan sjálfakandi möguleika.

Sölumaður hjá Mini umboðinu útskýrði ADAS búnaðinn mjög vel, en hjá Vauxhall gat sölumaðurinn ekki útskýrt hvernig akreinakerfin virkuðu.

Bílasalinn sem sérhæfði sig í sölu notaðra bíla vissi ekkert um ADAS búnaðinn í fyrstu en gat síðan flett upp upplýsingum um öryggiskerfi bílsins.

Hvernig er staðan á Íslandi?

Nú væri fróðlegt að kanna þekkingu og fræðslu til neytenda um virkni öryggiskerfa (ADAS) hjá sölusérfræðingum bílaumboða og bílasölum á Íslandi. Það er eðlileg krafa að neytendur séu vel upplýstir um virkni og viðmót þessara mikilvægu öryggiskerfa.

Meðfylgjandi er ágætt skýringarmyndband um ADAS öryggisbúnaðinn.

Deila grein: